Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11829/2022)

Kvartað var yfir synjun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á beiðni um endurupptöku úrskurðar nefndarinnar.  

Endurupptökubeiðnin var lögð fram í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis. Í því beindi hann þeim tilmælum til úrskurðarnefndarinnar að taka málið aftur til meðferðar bærist beiðni þess efnis og leysa þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin voru í álitinu. Nefndin varð ekki við því og þar sem umboðsmaður hefur ekki réttarskipandi vald var viðkomandi bent á að jafnan þyrfti atbeina dómstóla til að leysa úr ágreiningi sem þessum.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. september 2022, sem hljóðar svo:

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar fyrir hönd A 7. september sl. yfir synjun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 31. ágúst sl. við beiðni umbjóðanda yðar um endurupptöku úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 7/2020 frá 4. júní 2020.

Endurupptökubeiðnin var lögð fram í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 11049/2021 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar í máli umbjóðanda yðar hefði verið ábótavant og úrskurðurinn því ekki í samræmi við lög. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til úrskurðarnefndarinnar að taka málið aftur til meðferðar bærist beiðni þess efnis og leysa þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Í kvörtun yðar nú eru efnislega gerðar athugasemdir við að úrskurðarnefndin hafi ekki farið að þessum tilmælum umboðsmanns Alþingis, þess farið á leit að hann ítreki þau sjónarmið sem fram komu í téðu áliti og beini á ný þeim tilmælum til úrskurðarnefndarinnar að hún endurupptaki málið.

Af framangreindu tilefni tek ég fram að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, hefur umboðsmaður ekki réttar­skipandi vald, heldur lætur hann í ljós álit sitt í samræmi við b-lið 2. mgr. 10. gr. laganna og beinir eftir atvikum tilmælum til stjórnvalds um úrbætur. Ef umboðsmaður lýkur máli með þessum hætti, svo sem umboðsmaður gerði í tilefni af kvörtun umbjóðanda yðar, ræðst framgangur málsins af frekari athöfnum þess sem hefur leitað til umboðsmanns og því hvernig stjórnvaldið bregst við. Ef stjórnvaldið verður ekki við tilmælum umboðsmanns þarf að meta hvort tilefni sé fyrir umboðsmann að fjalla um málið á ný, en það gerir hann ekki af þeirri ástæðu einni að stjórnvaldið lýsi sig ósammála áliti hans, eftir atvikum með því að fallast ekki á beiðni um endurupptöku þess. Ef sú er raunin verður að jafnaði að bera ágreininginn undir dómstóla ef málsaðili fellir sig ekki við afstöðu stjórnvaldsins.

Samkvæmt framangreindu tel ég að fyrrgreind synjun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 31. ágúst sl. geti ekki orðið tilefni að því að ég taki mál umbjóðanda þíns til umfjöllunar á nýjan leik. Ég tek þó fram að samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 85/1997 skal umboðsmaður gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári. Í þessum skýrslum hefur verið tekið saman hvernig stjórnvöld bregðast við tilmælum sem umboðsmaður beinir til þeirra til að gefa Alþingi greinargott yfirlit þar um. Líkt og gildir um önnur mál má þannig gera ráð fyrir að greint verði frá fyrrgreindri afstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála til tilmæla umboðsmanns í ársskýrslu hans fyrir árið 2022.