Skattar og gjöld. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Aðild.

(Mál nr. 11521/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um að leggja stöðubrotsgjald á bíl fyrirtækis sem viðkomandi ók umrætt sinn. Umboðsmaður taldi að ekki væri unnt að líta svo á að ákvörðun Bílastæðasjóðs hefði beinst sérstaklega að viðkomandi og því ekki skilyrði til að hann fjallaði frekar um kvörtunina.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 4. apríl 2022.

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 30. janúar sl. yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur 17. nóvember sl. um að leggja stöðubrotsgjald á bifreið X hf., en samkvæmt kvörtuninni eruð þér starfsmaður félagsins og voruð ökumaður bifreiðarinnar umrætt sinn. Í kvörtuninni er um aðild yðar vísað til þess að stöðubrotsgjaldið hefði verið dregið af launagreiðslum félagsins til yðar.

Í tilefni af kvörtuninni hafði starfsmaður umboðsmanns Alþingis samband við yður símleiðis þar sem þess var óskað að þér afhentuð umboðsmanni afrit af annars vegar launaseðli yðar eða öðrum gögnum þar sem áðurnefndur frádráttur kæmi fram og hins vegar álagningarseðli Bílstæðasjóðs. Í ljósi þess að umrædd gögn bárust ekki var yður ritað bréf 21. mars sl. þar sem sú beiðni var ítrekuð. Álagningarseðill Bílastæðasjóðs barst með tölvupósti frá yður 29. sama mánaðar en þar kom jafnframt fram að stöðubrotsgjaldið hefði ekki verið dregið af launagreiðslum félagsins til yðar.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna, kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.

Samkvæmt gögnum málsins var stöðubrotsgjaldið lagt á bifreið X hf. og var það jafnframt greitt af félaginu. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að félaginu sé kunnugt um hana og þá var fjárhæð gjaldsins ekki dregin af launagreiðslum félagsins til yðar. Í ljósi framangreinds tel ég ekki unnt að líta svo á að ákvörðun Bílastæðasjóðs hafi beinst sérstaklega að yður eða að sýnt hafi verið fram á að hún snerti hagsmuni yðar eða réttindi umfram aðra. Eru því ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.