I. Kvörtun og málavextir.
Hinn 19. júní 1990 leituðu til mín hjónin A og B, og kvörtuðu yfir því, að bæjaryfirvöld í Y sinntu ekki á fullnægjandi hátt skólaakstri. Væri skólaakstri þannig háttað, að skólabílar ækju um þjóðveg í Y-sveit og þyrftu nemendur sjálfir að koma sér að biðskýli við þjóðveginn. Gönguleið fyrir son þeirra frá heimili þeirra, X, að þjóðveginum væri 1,5 km. löng. Leiðin væri óupplýst og sæist ekki heiman frá X til ferða manna á kafla leiðarinnar. Töldu A og B þessa leið það langa og erfiða, að 7 ára syni þeirra væri ekki ætlandi að fara þessa leið á eigin spýtur. Telja þau því, að Y beri að sjá til þess að skólabíll aki alla leið að X.
II. Athugun umboðsmanns Alþingis.
Síðari hluta sumars árið 1989 óskuðu A og B eftir því við yfirvöld í Y, að skólabíll æki 7 ára syni þeirra heim að X. Slík þjónusta hefði tíðkast í Z í Y-sveit, en þar væri gönguleið 1,1--1,2 km. löng frá þjóðvegi.
Á 17. fundi skólanefndar Y 4. september 1989 var bókað:
„3.Lagt fram bréf frá [A] og [B] vegna skólaaksturs fyrir ungan son þeirra, 7 ára gamlan.
Skólanefnd mælist eindregið til þess að bæjarstjórn endurskoði afstöðu sína til þess að komið verið til móts við erindi [A] og [B], um akstur á syni þeirra til og frá skólabíl. Í því sambandi bendir nefndin á sérstaka aðstöðu, þar sem um er að ræða langan vegarkafla á bersvæði.
Í þessu sambandi má benda á sambærilegar úrlausnir og eru á akstri í „[Þ]-sveitinni“.“
Hinn 20. september 1989 höfnuðu bæjaryfirvöld í Y erindi A og B.
Með bréfi, dags. 28. september 1989, leitaði formaður skólanefndar Y eftir úrskurði félagsmálaráðuneytisins í málinu. Í bréfinu var málavöxtum lýst og tekið fram, að skólanefnd í Y hefði ályktað í málinu og beint þeim tilmælum til bæjaryfirvalda í Y, að þau endurskoðuðu afstöðu sína til málsins en enn sem fyrr hefði því verið hafnað. Bæjaryfirvöld væru meðvituð um 4. gr. grunnskólalaga, er kvæði á um að stefna bæri að akstri skólabarna svo og um 79. gr. sömu laga, sem mælti fyrir um endurgreiðslu ríkisins á akstrinum. Í lögum væri hins vegar hvergi kveðið á um skyldur sveitarfélaga um akstur skólabarna. Fram kom í bréfi formanns skólanefndarinnar, að hann legði beiðni um úrskurð fram með því að umrætt barn hefði ekki enn komið í skóla það sem af væri af skólaárinu.
Félagsmálaráðuneytið svaraði erindi formanns skólanefndar með bréfi, dags. 15. nóvember 1989. Ráðuneytið tók fram, að samkvæmt 4. gr. A-lið í reglugerð um stjórnarráð Íslands nr. 96/1969 færi það með mál, er vörðuðu stjórn sveitarfélaga, að því leyti sem þau heyrðu ekki undir önnur ráðuneyti samkvæmt sérlögum. Í 1. tl. 10. gr. reglugerðar þessarar væri svo mælt fyrir, að menntamálaráðuneytið færi með mál, er vörðuðu kennslu og skóla þar á meðal grunnskóla. Í lögum um grunnskóla nr. 63/1974 væri meðal annars fjallað um skólaakstur nemenda. Með vísan til þessa væri ljóst, að það félli ekki undir valdsvið félagsmálaráðuneytisins að úrskurða í málinu. Samkvæmt þessu vísaði ráðuneytið málinu frá.
Með bréfi, dags. 29. september 1989, báru A og B málið undir menntamálaráðuneytið. Þar sem þeim bárust engin svör frá menntamálaráðuneytinu, skutu þau málinu til mín hinn 19. júní 1990. Hinn 23. júlí 1990 ritaði ég menntamálaráðuneytinu bréf og óskaði upplýsinga um, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, hvað liði afgreiðslu menntamálaráðuneytisins á ofangreindu erindi A og B. Þar sem svar við erindinu barst ekki frá ráðuneytinu, ítrekaði ég fyrirspurnina með bréfi, dags. 3. desember 1990, og aftur með bréfi, dags. 3. janúar 1991.
Hinn 15. febrúar 1991 barst mér bréf frá fræðslustjóra Öumdæmis og segir þar meðal annars:
„Með bréfi dagsettu 9. janúar s.l. framsendi menntamálaráðuneytið hingað bréf umboðsmanns Alþingis dags. 23. júlí s.l. vegna erindis [A] og [B] varðandi skólaakstur frá [X] í [Y].
Ráðuneytið óskar eftir því að fræðslustjóri sendi umboðsmanni Alþingis greinargerð um þetta mál og láti í ljós álit á kvörtun A og B.
Kvörtun sú sem hér um ræðir hefur verið til umfjöllunar hjá félagsmálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti án þess að skorið hafi verið úr um það hvort sveitarfélag eða foreldrar beri ábyrgð á því að koma viðkomandi nemanda í skólann.
Í tilefni af framangreindu skal það tekið fram að undirritaður telur að málsatvik liggi ljós fyrir í hjálögðum gögnum.
Undirritaður telur sig ekki hafa lagalegar forsendur til að úrskurða um það hvort sveitarfélag eða foreldrar skuli bera ábyrgð á að koma nemanda í skólann í því tilviki sem að framan greinir.
Varðandi skólasókn nemenda frá [X] skal hér tekið undir það sjónarmið sem fram kemur í hjálögðu bréfi skólastjóra [V] þar sem segir að ungum börnum sé ekki ætlandi að fara þessa leið á eigin spýtur.
Nauðsynlegt er að mati undirritaðs að lögbundnar verði reglur um hvernig fara skuli með mál af því tagi sem hér um ræðir svo að hægt verði að afgreiða þau fljótt og örugglega.“
Þar sem svör bárust enn ekki frá menntamálaráðuneytinu, þrátt fyrir margítrekuð tilmæli, ritaði ég menntamálaráðuneytinu bréf, dags. 14. mars 1991, og óskaði upplýsinga um, hvort menntamálaráðuneytið hefði sjálft svarað bréfi A og B frá 29. september 1989. Þá sagði svo í bréfi mínu:
„Ég leyfi mér hér með að ítreka tilmæli mín í ofangreindu bréfi mínu frá 23. júlí 1990 til menntamálaráðuneytisins. Einnig óska ég svara ráðuneytisins við því, hvort það telji sig ekki eiga úrlausn um það málefni, sem nefnt bréf [A] frá 29. september 1989 lýtur að. Ég vek þar athygli á því, að í 84. gr. laga nr. 63/1974 um grunnskóla og 39. gr. reglugerðar nr. 213/1975 um rekstrarkostnað grunnskóla segir, að menntamálaráðuneytið hafi umsjón með fjárhagslegri framkvæmd laganna og reglugerðarinnar.“
Svar menntamálaráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 3. apríl 1991, og hljóðar það svo:
„Skólaakstur í [Y]-sveit.
Kæra [B] og [A], [X].
Um skólaakstur er m.a. fjallað í reglugerð nr. 213/1975 þ.e. ákvæði er snúa að skipulagi skólaaksturs, endurgreiðslum á aksturskostnaði o.fl.
Sú meginregla hefur ávallt gilt, að heimaaðilar þ.e. sveitarfélög eða t.d. skólanefndir í þeirra umboði skipuleggja skólaakstur í hverju skólahverfi.
Ríkissjóður endurgreiddi sveitarfélögum fram til 1. jan. 1990, 50--85% kostnaðar við framkvæmd skólaaksturs, eða þar til ákvæði laga um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga tóku gildi.
Í samræmi við ákvæði fyrri málsgreinar 22. gr. reglugerðar nr. 213/1975 um rekstrarkostnað grunnskóla tók endurgreiðsla ríkissjóðs mið af því að akstur væri skipulagður með þeim hætti að séð yrði fyrir akstri nemenda sem ættu lengri veg að fara en 1500 m. að skóla eða að akstursleið skólabifreiðar. Meðal annars á grundvelli síðari málsgreinar sömu greinar var ekki gert ráð fyrir að skólaakstur yrði skipulagður með þeim hætti að eknar yrðu allar heimreiðar í dreifbýli heldur að ekið væri eftir aðalakstursleiðum.
Frávik frá meginreglu um 1500 m. gönguleið hafa verið allnokkur. Hefur þá verið tekið tillit til staðhátta og aldurs nemenda.
Í ljósi þeirra upplýsinga um 1500 m. gönguleið frá [X] að akstursleið skólabifreiðar og að teknu tilliti til aldurs viðkomandi nemanda á árinu 1989 er nokkuð víst að ríkissjóður hefði ekki hafnað beiðni um endurgreiðslu á kostnaði samkvæmt 24. gr. c lið.
Ráðuneytið fól fræðslustjórum, eftir því sem við á að framfylgja ákvæðum laga og reglugerðar er snúa að skólaakstri. Því hefur í þessu tilviki eftirlit með skipulagi og daglegum akstri í [Y]-sveit verið í höndum fræðslustjóra [Ö]-umdæmis. Ráðuneytinu er kunnugt um að fræðslustjóri fylgdist grannt með því máli sem hér er til umfjöllunar og telur að hann hafi unnið að málinu í umboði ráðuneytisins.“
Með bréfi, dags. 5. apríl 1991, gaf ég A og B kost á að gera athugasemdir við bréf ráðuneytisins. Athugasemdir þeirra bárust mér með bréfi, dags. 6. maí 1991.
Þar sem ráðuneytið hafði enn ekki leyst úr erindi A og B, ritaði ég menntamálaráðuneytinu bréf, dags. 22. júlí 1991. Þar sagði meðal annars:
„Engin úrlausn liggur enn fyrir af hálfu yfirvalda menntamála um nefnt deiluatriði, hvorki fræðslustjóra [Ö]-umdæmis né ráðuneytisins sjálfs. Af þessum sökum leyfi ég mér að ítreka tilmæli mín í bréfi til ráðuneytisins frá 14. mars sl. um svör við því, hvort ráðuneytið telji sig ekki eiga úrlausnarvald um þetta málefni, og ef svo er, hvort ekki megi vænta ákvörðunar þess eða fræðslustjóra [Ö] í málinu.“
Þar sem svar við erindinu barst ekki frá ráðuneytinu, ítrekaði ég erindið með bréfi, dags. 28. október 1991, og aftur með bréfi, dags. 28. nóvember 1991. Svar ráðuneytisins barst mér svo með bréfi, dags. 1. júní 1992, sem hljóðar svo:
„Menntamálaráðuneytið biðst velvirðingar á því hve seint er brugðist við síðari ítrekun um þetta mál.
Minnt skal á svar fræðslustjóra [Ö]-umdæmis dags. 13. febr. 1991 þar sem tekið er undir það álit skólastjóra [V] dags. 8. jan. 1991 að ungum börnum sé ekki ætlandi að fara umrædda leið á eigin spýtur.
Í bréfi ráðuneytisins til Umboðsmanns Alþingis dags. 3. apríl 1991 kemur fram það mat ráðuneytisins að ekki hefði verið hafnað endurgreiðslu á hluta ríkisins í kostnaði ef til hefði komið.
Með þessu telur ráðuneytið sig hafa látið í ljós álit sitt á málinu.
Ráðuneytið telur sig hins vegar ekki hafa skýra heimild til að grípa til aðgerða sbr. bréf fræðslustjóra 13. febr. 1991. Frumábyrgð á skólasókn barna er hjá foreldrum og skólanefnd og skólaakstur er skipulagður og á ábyrgð sveitarstjórnar enda þótt ríkið hafi endurgreitt hluta af kostnaði á þeim tíma sem umrætt mál kemur upp.“
Með bréfi, dags. 11. júní 1992, gaf ég A og B kost á að gera athugasemdir við bréf ráðuneytisins.
III. Álit umboðsmanns Alþingis.
Ég taldi, að ekki yrði annað ráðið af bréfi menntamálaráðuneytisins, dags. 1. júní 1992, sbr. hér að framan, en að það áliti sig ekki eiga úrskurðarvald í málinu og að það hefði ekki fjallað sem æðra stjórnvald um kæru A og B frá 29. september 1989 heldur vísað henni frá. Vegna ákvæða um valdsvið mitt í lögum nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, bæði að því er tekur til stjórnsýslu sveitarfélaga og þess áskilnaðar, að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, megi skjóta máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki áður fellt úrskurð sinn í málinu, einskorðaði ég álit mitt, dags. 12. nóvember 1992, við málsmeðferð menntamálaráðuneytisins. Sagði svo um þetta í álitinu:
„1. Niðurstaða menntamálaráðuneytisins í málinu
Í skýringum menntamálaráðuneytisins í bréfi þess, dags. 1. júní 1992, sem raktar eru í II. kafla hér að framan, kemur fram, að „Ráðuneytið telur sig ... ekki hafa skýra heimild til að grípa til aðgerða“ í málinu. Af því verður ekki annað ráðið en að menntamálaráðuneytið telji sig ekki eiga úrskurðarvald í málinu. Verður fyrrnefnt bréf menntamálaráðuneytisins ekki skilið á annan hátt en að ráðuneytið hafi ekki fjallað sem æðra stjórnvald um kæruna, heldur vísað henni frá.
Í 3. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er svo fyrir mælt, að umboðsmaður Alþingis fjalli því aðeins um stjórnsýslu sveitarfélaga, að um sé að ræða ákvarðanir, sem skjóta megi til ráðherra eða annars stjórnvalds ríkisins. Þá segir ennfremur í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki áður fellt úrskurð sinn í málinu. Af þessum sökum tel ég á þessu stigi rétt, að fjalla í áliti þessu einungis um málsmeðferð ráðuneytisins og um það, hvort framangreind niðurstaða menntamálaráðuneytisins sé í samræmi við grunnskólalög nr. 63/1974, sbr. núgildandi lög nr. 49/1991, og almennar réttarreglur stjórnsýsluréttar um málskot til æðra stjórnvalds.
2. Kæruheimild til menntamálaráðuneytisins
Hinn 29. september 1989 skutu A og B máli sínu til menntamálaráðuneytisins. Þá voru í gildi lög nr. 63/1974 um grunnskóla svo og reglugerð nr. 213/1975 um rekstrarkostnað grunnskóla. Samkvæmt lögum þessum og reglugerð voru það ýmist ríkið eða sveitarfélög, sem báru tiltekin útgjöld vegna grunnskóla, eða um var að ræða sameiginlegan kostnað þessara aðila. Í 1. málslið 1. mgr. 9. gr. laga nr. 63/1974 um grunnskóla var skýrt kveðið á, að menntamálaráðuneytið færi með yfirstjórn þeirra mála, er lög nr. 63/1974 tóku til. Í 84. gr. laga nr. 63/1974 um grunnskóla og 39. gr. reglugerðar nr. 213/1975 kom fram, að menntamálaráðuneytið hefði umsjón með fjárhagslegri framkvæmd laganna og reglugerðarinnar. Var gengið út frá því bæði í lögum svo og framkvæmd, að heimilt væri að kæra ákvarðanir sveitarstjórnar um skólaakstur til menntamálaráðuneytisins. Er óumdeilt að menntamálaráðuneytið var bært að lögum til þess að leggja úrskurð á umrætt mál, þegar A og B skutu því til ráðuneytisins.
Hinn 1. janúar 1990 gengu í gildi lög nr. 87/1989 um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Með VI. kafla þeirra var lögum nr. 63/1974 um grunnskóla breytt. Í athugasemdum við VI. kafla í greinargerð með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 87/1989, segir:
„Um VI. kafla.
Bygging og rekstur grunnskóla hefur verið sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga.
[...]
Til þess að einfalda þessi samskipti er lagt til að verkefni ríkisins verði að sjá að mestu um hinn uppeldisfræðilega þátt skólastarfsins, en hlutur sveitarfélaga verði að standa straum af kostnaði við umgjörð þess starfs, aðbúnað og aðstöðu.
Ríkissjóður greiði því laun vegna kennslu, stjórnunar og starfa á skólasöfnum, við skólaráðgjöf og við yfirstjórn fræðslumála.
[...]
Sveitarfélög kosti ein byggingu grunnskóla.
Auk þess bæru sveitarfélögin ein kostnað af nokkrum rekstrarþáttum sem áður voru greiddir eða endurgreiddir að hluta úr ríkissjóði. Þessir rekstrarþættir eru: Laun vegna gæslu og mötuneytis nemenda í heimavistum og heimanakstri, [...]. Kostnað vegna skólaaksturs, [...].“ (Alþt. 1988, A-deild, bls. 1355).
Ákvæði 2. mgr. 44. gr. laga nr. 87/1989 um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hljóðar svo:
„Sveitarfélög greiða allan annan rekstrarkostnað grunnskóla en laun vegna kennslu og stjórnunar, eða kostnað vegna annarra þeirra rekstrarþátta sem greindir eru í lögum þessum sem verkefni ríkissjóðs.“
Í greinargerð með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 87/1989, segir meðal annars í athugasemdum við 45. gr., sem varð að 44. gr. laga nr. 87/1989:
„Samkvæmt fyrirhugaðri breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga bera sveitarfélögin ein kostnað af nokkrum rekstrarþáttum sem áður voru greiddir eða endurgreiddir að hluta úr ríkissjóði, en þeir eru, auk stofnkostnaðar, launakostnaður vegna umsjónar og mötuneytis nemenda í heimavistum og heimanakstri, skrifstofukostnaður, tækjavarsla, félagsstarf og akstur nemenda, heilsugæsla, að því leyti sem hún fellur til sem skólakostnaður, svo og húsaleiga og tryggingar fasteigna.“ (Alþt. 1988, A-deild, bls. 1358).
Samhliða breytingu á fjárhagslegum skiptum ríkis og sveitarfélaga urðu nokkrar breytingar í stjórnun grunnskóla (Alþt. 1988, A-deild, bls. 1355). Með lögunum kom t.d. í hlut sveitarstjórna eða samtaka sveitarfélaga í fræðsluumdæmi að kjósa fulltrúa í fræðsluráð, sbr. 30. gr. laga nr. 87/1989, en fræðslustjóri varð eftir breytinguna aðeins lögskipaður fulltrúi menntamálaráðuneytisins um fræðslumál í umdæminu, sbr. 32. gr. laga nr. 87/1989.
Engin breyting varð hins vegar á yfirstjórn skólamála með lögum nr. 87/1989 að öðru leyti en því, að með 1. mgr. 46. gr. laga nr. 87/1989 var ákvæði 1. mgr. 84. gr. grunnskólalaga breytt, þar sem vegna hinnar nýju verkaskiptingar þurfti ekki lengur að leggja fram reikninga til úrskurðar um hlut ríkissjóðs í almennum rekstri grunnskóla (Alþt. 1988, A-deild, bls. 1358). Það verður hins vegar hvorki ráðið af lögum né lögskýringargögnum, að um aðrar breytingar hafi verið að ræða á yfirstjórn skólamála.
Með lögum nr. 49/1991 voru sett ný grunnskólalög. Í þeim er óbreytt skipan varðandi yfirstjórn skólamála, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna, og eftirlit, sbr. 1. mgr. 82. gr. laganna.
Að framansögðu athuguðu verður því að telja ljóst, að heimild til að kæra ákvarðanir sveitarstjórna um skólaakstur hafi hvorki verið breytt með lögum nr. 87/1989 um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga né grunnskólalögum nr. 49/1991. Verða slíkar ákvarðanir því kærðar til menntamálaráðuneytisins. Hlutverk ráðuneytisins er að úrskurða um greiðsluskyldu sveitarfélags samkvæmt lögum, sem lúta yfirstjórn ráðuneytisins og því ber þess vegna að hafa eftirlit með framkvæmd þeirra.
Í stjórnsýslukæru felst annars vegar réttur fyrir aðila máls að bera ákvörðun undir æðra stjórnvald til endurskoðunar og hins vegar skylda fyrir hið æðra stjórnvald að úrskurða um efni kæru, að uppfylltum kæruskilyrðum. Eftir að A og B höfðu skotið máli sínu til menntamálaráðuneytisins, bar ráðuneytinu því skylda til að leggja úrskurð á málið.
3. Svör ráðuneytisins við erindinu
Hinn 29. september 1989 skutu A og B máli sínu til menntamálaráðuneytisins. Hinn 1. júní 1992 ritaði menntamálaráðuneytið mér bréf, þar sem fram kom að ráðuneytið taldi sig ekki hafa heimild „til aðgerða“. Ekki kemur hins vegar fram, að A og B, sem borið höfðu málið upp við ráðuneytið, hafi verið tilkynnt þessi niðurstaða í málinu af hálfu ráðuneytisins.
Ganga verður út frá þeirri meginreglu, að hver sá, sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvöld, eigi rétt á skriflegu svari hlutaðeigandi stjórnvalds, nema ljóst sé, að svars sé ekki vænst. Þegar mál hefur verið kært til ráðuneytis, hefur ráðuneyti skyldu til að úrskurða í málinu og tilkynna síðan aðila niðurstöðu í því. Gildir þetta hvort sem ráðuneytið hefur tekið málið til efnisúrlausnar eða vísað því frá. Verður því að telja það verulegan annmarka á afgreiðslu máls þessa af hálfu menntamálaráðuneytisins, að niðurstaða málsins skuli ekki hafa verið tilkynnt aðilum þess.
4. Afgreiðslutími
Ganga verður út frá þeirri grundvallarreglu, að stjórnvöldum beri að svara erindum, sem þeim berast, svo fljótt sem verða má. Hins vegar eru viðfangsefni, sem ráðuneytum berast, margvísleg og tekur úrlausn þeirra því óhjákvæmilega misjafnlega langan tíma.
Eins og áður segir skutu A og B máli sínu til menntamálaráðuneytisins 29. september 1989. Niðurstaða málsins lá síðan fyrir í bréfi ráðuneytisins til mín, dags. 1. júlí 1992, en hefur hins vegar ekki enn verið tilkynnt aðilum málsins með formlegum hætti, eins og áður segir. Á þessum langa afgreiðslutíma málsins hafa engar viðhlítandi skýringar verið gefnar og samrýmist hann á engan hátt vönduðum stjórnsýsluháttum.
5. Niðurstaða
Samkvæmt framansögðu tel ég afgreiðslu umrædds máls hafa dregist úr hófi. Þá er það niðurstaða mín, að menntamálaráðuneytið sé bært að lögum til þess að úrskurða í máli því, er A og B skutu til ráðuneytisins. Var ráðuneytinu því óheimilt að vísa málinu frá. Af þeim sökum eru það tilmæli mín, að menntamálaráðuneytið taki málið til efnismeðferðar, komi fram ósk um það frá A og B, og hagi þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið, sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan.“
IV. Viðbrögð stjórnvalda.
Með bréfi, dags. 18. desember 1992, óskaði ég eftir upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu um það, hvort A og B hefðu leitað á ný til ráðuneytisins og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af því. Svar menntamálaráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 4. janúar 1993, og hljóðar það svo:
„Vísað er til bréfs yðar dags. 18. des. sl. um mál [A] og [B] (mál nr. 309/1990) vegna kvörtunar þeirra út af skólaakstri í [Y-sveit].
Vegna fyrirspurnar yðar í ofangreindu bréfi vill menntamálaráðuneytið taka fram að [A] og [B] hafa ekki leitað til ráðuneytisins eftir að álit yðar í máli þeirra kom fram.“