Börn. Málshraði.

(Mál nr. 11541/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu kvörtunar hjá Barnaverndarstofu og til vara tiltekinni barnavernd.

Í ljósi upplýsinga um stöðu málsins hjá Gæða- og eftirlitsstofnun var ekki tilefni fyrir umboðsmann til að aðhafast að svo stöddu vegna kvörtunarefnisins. Hann sendi hins vegar stofnuninni bréf með ábendingum vegna málshraða.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 4. apríl 2022.

  

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 3. febrúar sl. fyrir hönd A vegna tafa á afgreiðslu kvörtunar til Barnaverndarstofu er lýtur að störfum barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar. Til vara var kvörtun yðar til umboðsmanns beint að nefndinni.

Með bréfi til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála 2. mars sl. óskaði umboðsmaður upplýsinga um hvort hvort fyrrgreint erindi til Barnaverndarstofu, sem lögð var niður um síðastliðin áramót, hefði borist stofnuninni og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þess. Í svarbréfi 17. mars sl., sem fylgir bréfi þessu í ljósriti, kom fram að téð erindi hefði verið meðal þeirra óafgreiddu mála er stofnuninni hefðu borist frá Barnaverndarstofu í samræmi við nr. lög nr. 88/2021, um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Í bréfinu kom enn fremur fram að umbjóðandi yðar yrði upplýstur um frekari tafir ef stofnuninni tækist ekki að ljúka málinu innan þess sex mánaða frests sem lögfræðingur Barnaverndarstofu hafði áætlað 12. nóvember sl., sbr. tölvubréf til yðar þann dag. Þá upplýsti starfsmaður Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála í símtali við starfsmann umboðsmanns að barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar hefði 12. janúar 2021 afhent Barnaverndarstofu gögn málsins ásamt svörum við þeim spurningum sem Barnaverndarstofa beindi til nefndarinnar með bréfi sínu 10. desember 2020. 

Í ljósi framangreindra upplýsinga um stöðu málsins tel ég ekki tilefni til þess að taka það til frekari athugunar að svo stöddu. Hins vegar hefur það orðið mér tilefni til þess að rita Gæða- og eftirlitsstofnun bréf og koma á framfæri ábendingum sem tengjast málshraða. Bréfið fylgir hér í ljósriti.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég málinu hér með lokið. Ef þér teljið umbjóðanda yðar enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála getið þér leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi.

  


 

Bréf umboðsmanns til Gæða- og eftirlitsstofnunar 4. apríl 2022.

   

Vísað er til fyrri samskipta við Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála í tilefni af kvörtun A til umboðmanns Alþingis nýverið. Eins og fram kemur í bréfi mínu til lögmanns A, sem fylgir hér með í ljósriti, hef ég ákveðið að ljúka athugun minni á máli hans með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Málið hefur hefur þó gefið mér tilefni til þess að koma á framfæri við Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála tilteknum ábendingum.

Skrifleg kvörtun A til Barnaverndarstofu yfir barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar er frá 20. nóvember 2020 og í hjálögðu bréfi kemur fram að Barnaverndarstofa hafi fengið umbeðin svör og gögn málsins frá nefndinni 12. janúar 2021. Þá liggur fyrir að við móttöku kvörtunarinnar upplýsti Barnaverndarstofa að gera mætti ráð fyrir átta til tíu mánaða málsmeðferðartíma en með tölvubréfi u.þ.b. 11 mánuðum síðar var beðist velvirðingar á töfum sem orðið hefðu vegna anna hjá stofunni og jafnfram tilgreint að niðurstöðu mætti vænta innan sex mánaða. Í bréfi Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála til umboðsmanns 17. mars sl. var vísað til þessa síðastgreinda frests með þeim orðum að ekki væri ljóst að svo stöddu hvort sá tímarammi myndi standa en upplýst yrði um frekari tafir ef til kæmu. 

Samkvæmt grundvallarreglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðri meginreglu stjórn­sýslu­réttar um málshraða skulu ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Þetta hefur gjarnan verið orðað svo að leysa beri úr málum borgaranna og erindum þeirra án þess að óeðlilegar eða óréttlættar tafir verði þar á. Það fer eftir umfangi viðkomandi máls og álagi í starfi stjórnvaldsins hvaða tími telst hæfilegur og eðlilegur við afgreiðslu þess. Þá er í 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga mælt fyrir um þegar fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls muni tefjast beri að skýra aðila máls frá því og skuli þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Þegar ekki er mælt fyrir um fastákveðinn afgreiðslutíma í lögum er nauðsynleg forsenda þess að stjórnvald geti sinnt framangreindum skyldum sínum með fullnægjandi hætti að tekin sé afstaða til þess hvað geti talist eðlilegur afgreiðslutími mála og þar með hvenær sú skylda verður virk að tilkynna um fyrirsjáanlegar tafir. Ég tek fram að þessi skylda er nauðsynlegt skilyrði eðlilegra samskipta almennings og stjórnvalda og þess trausts sem stjórnvöld verða að njóta hjá almenningi.

Þótt játa verði stjórnvöldum nokkurt svigrúm við mat á þeim tíma sem nauðsynlegur er til afgreiðslu mála og útfærslu viðmiða eða verklagsreglna þar að lútandi, og að ekki verði gerðar athugasemdir við að borgurunum séu veittar upplýsingar um þann tíma sem í reynd má gera ráð fyrir að taki að afgreiða erindi þeirra vegna ástæðna sem teljast réttlætanlegar, haggar það ekki skyldum þeirra á grundvelli umræddrar málshraðareglu stjórnsýsluréttarins. Hér verður að horfa til þess að málshraðareglunni er ætlað að standa vörð um þá hagsmuni aðila máls, sem kunna að vera brýnir, að viðkomandi mál hljóti hraða afgreiðslu hjá stjórnvöldum.

Hafi Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála ekki þegar hugað að framangreindum atriðum í málsmeðferð sinni bendi ég stofnuninni á að gera það.