Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 11595/2022)

 

Kvartað var yfir ráðningu Samgöngustofu í starf sérfræðings í ökunámi og annmörkum á mati og samanburði á hæfni umsækjenda. Sér í lagi hver voru boðuð í viðtal og að sá hæfasti hefði ekki verið ráðinn.

  

Af gögnum málsins mátti ráða að Samgöngustofa hefði metið umsóknir allra með vísan til sömu hæfnisviðmiða og á þeim grundvelli talið fimm hæfasta. Ekki voru efni til annars en líta svo á að ákvörðun stofnunarinnar um að útiloka aðra hefði byggst á heildstæðu mati sem grundvallast hefði á lögmætum sjónarmiðum. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til nánari athugunar á málsmeðferðinni.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 5. apríl 2022.

 

 

I

Vísað er til kvörtunar yðar 9. mars sl. fyrir hönd A yfir ákvörðun Samgöngustofu um ráðningu í auglýst starf sérfræðings í ökunámi í deild leyfisveitinga og ökunáms á sviði umferðar og þjónustu við stofnunina, en hann var meðal umsækjenda um starfið. Kvörtunin lýtur að annmörkum á mati og samanburði á hæfni umsækjenda, sér lagi ákvörðun um hvaða umsækjendum var boðið í viðtal, og að sá hæfasti þeirra hafi ekki verið ráðinn.

Meðal skjala sem fylgdu kvörtuninni í afriti voru bréf 7. janúar sl. til A með rökstuðningi fyrir ákvörðun Samgöngustofu um ráðningu í starfið, umsóknir A og þeirra fimm sem boðið var viðtal svo og hluti skriflegra samskipta yðar og stofnunarinnar á tímabilinu 11. janúar til 9. mars. sl.

 

II

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Við athugun á málum sem þessum er umboðsmaður ekki í sömu stöðu og það stjórnvald sem ákvað hvaða umsækjanda skyldi ráða í starf, enda hefur verið lagt til grundvallar í íslenskum rétti að stjórnvald njóti svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur hafi það aflað fullnægjandi upplýsinga til að meta hæfni þeirra og sýnt fram á að heildstæður samanburður á þeim hafi farið fram. Í þessu máli er það því ekki hlutverk umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvern hefði átt að ráða í téð starf, heldur að fjalla um hvort meðferð málsins og ákvörðun Samgöngustofu hafi verið lögmæt.

Í auglýsingu Samgöngustofu um starfið kom fram að starfið væri í nýrri deild leyfisveitinga og ökunáms og leitað væri að einstaklingi sem hefði áhuga á ökunámi, umferðaröryggismálum, stöðugum umbótum og væri góður liðsmaður. Þá voru eftirfarandi menntunar- og hæfnikröfur skilgreindar:

 

  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi.
  • Þekking á umferðarmálum kostur, t.d. ökukennsla eða umferðar­eftirlit.
  • Reynsla af námskrár- og prófagerð er kostur.
  • Þekking og reynsla á stjórnarkerfum s.s. gæðastjórnunarkerfum er kostur.
  • Skipulagshæfni og sterk ferla- og umbótahugsun.
  • Sjálfstæði, frumkvæði og metnaður í starfi.
  • Mjög góð íslensku og enskukunnátta.
  • Hæfni til að tjá sig í rituðu og mæltu máli.

 

Umsækjendur um starfið voru 17. Áðurnefndur rökstuðningur ber með sér að mat á þeim hafi farið fram í þremur skrefum; fyrst á grundvelli umsókna þar sem valdir voru fimm umsækjendur sem best þóttu uppfylla auglýstar kröfur, þá með viðtölum við þessa fimm og loks með öðru viðtali við tvo úr hópi fimmmenninganna. Ferlinu lauk með því að annar hinna síðastnefndu var metinn hæfastur m.t.t. menntunar, starfs­reynslu, samskiptahæfni og frammistöðu í viðtölunum og ráðinn í starfið. Í rökstuðningnum kom enn fremur fram að sá umsækjandi hefði í fyrri störfum verið kennari, verkefnastjóri, deildarstjóri, aðstoðar­maður framkvæmdastjóra, hefði reynslu af skipulagningu náms­brauta, ritun námskráa og þátttöku í fjölbreyttum þróunarverkefnum.

Að virtu því svigrúmi sem stjórnvald hefur við val á sjónar­miðum sínum og áherslum, svo og þeirri aðstöðu að margir umsækjendur kunna að uppfylla auglýstar kröfur, er ekki tilefni til að gera athuga­semdir við að beitt sé samræmdri aðferð til að afmarka í fyrstu hóp hæfustu um­sækjenda, enda séu áherslur að þessu leyti til þess fallnar að varpa ljósi á raunverulega hæfni umsækjenda til að gegna starfinu. Með þessum fyrirvara hefur umboðsmaður almennt ekki heldur gert athugasemdir við það fyrirkomulag, sem gjarnan er viðhaft þegar margir sækja um starf, að frummat á umsækjendum grundvallist á tiltölulega hlutlægum atriðum, svo sem upplýsingum um menntun og starfsreynslu í ferilskrá, og í fram­haldinu sé eingöngu ákveðinn fjöldi umsækjenda boðaður í viðtal og komi til frekara mats, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis 21. október sl. í máli nr. F79/2018.  

Fyrir liggur, sbr. rökstuðning Samgöngustofu, að frummat á umsækjendum var miðað við auglýstar kröfur. Þótt stofnunin hafi ekki tilgreint viðmiðin nánar í svari til yðar 9. mars sl. verður að ganga út frá að þar hafi verið um að ræða hlutlæg viðmið út frá menntunar- og hæfnikröfum í auglýsingu þar eð huglæg atriði á borð við skipulagshæfni, frumkvæði og umbótahugsun verða, eðli málsins samkvæmt, ekki metin út frá skriflegum umsóknum einum saman. Ekki er því annað komið fram en að Samgöngustofa hafi, við úrlausn þess hverjir umsækjenda kæmu til frekari álita með boði um viðtal, lagt mat á umsóknir allra með vísan til sömu hæfniviðmiða og hafi á þeim grundvelli talið tiltekna fimm þeirra hæfasta. Verður að fallast á að þessi viðmið, þótt þau hafi ekki svarað til allra auglýstra krafna, hafi staðið í nægilegum tengslum við það markmið frummatsins að velja hóp hæfustu umsækjenda til frekara mats og ákvörðun Samgöngustofu hafi að þessu leyti rúmast innan svigrúms hennar. Að því virtu og að teknu tilliti til þeirra umsóknargagna sem liggja fyrir eru því ekki efni til annars en að líta svo á að ákvörðun Samgöngustofu um að útiloka aðra en áður­greinda fimm umsækjendur, þ.á m. umbjóðanda yðar, hafi byggst á heildstæðu mati sem grundvallaðist á lögmætum sjónarmiðum.

Af umræddum rökstuðningi að öðru leyti verður ekki annað ráðið en frekara mat á áðurgreindum fimm umsækjendum hafi sömuleiðis verið heildstætt og byggst á auglýstum kröfum til umsækjenda. Ég tel því að kvörtun yðar og gögn sem henni fylgdu gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar á málsmeðferð Samgöngustofu og niðurstöðu um hvaða umsækjandi hafi verið hæfastur í starf sérfræðings í ökunámi eins og það var skilgreint af stofnuninni.    

 

III

Með vísan til alls þess sem að framan greinir og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég málinu hér með lokið.