Heilbrigðismál. COVID-19. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11590/2022)

 

Kvartað var yfir aðgengi íbúa Suðurnesja að sýnatöku vegna COVID-19 og fólki væri að þessu leyti mismunað eftir búsetu.

 

Þar sem kvörtunin laut ekki tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum stjórnvalda sem beindustu sérstaklega að viðkomandi eða snerti beinlínis hagsmuni hans eða réttindi voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunarefnið. Þá varð ekki ráðið að sjónarmiðunum hefði verið komið á framfæri við heilbrigðis- eða sóttvarnayfirvöld þannig að málið var ekki heldur komið í sérstakan farveg innan stjórnsýslunnar.

  

 Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 5. apríl 2022.

 

 

Vísað er til kvörtun yðar 9. mars sl. sem lýtur að aðgengi íbúa Suðurnesja að sýnatöku vegna COVID-19. Byggist kvörtunin á því að almenningi sé að þessu leyti mismunað eftir búsetu.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafn­ræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og tilgreindar siðareglur, sbr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/1997 getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna kvartað af því tilefni til umboðsmanns og skal þá lýsa þeirri úrlausn eða annarri háttsemi stjórnvalds sem er tilefni kvörtunar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Í lögunum er einnig gert ráð fyrir að nýttar séu þær kæruleiðir sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunnar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, áður en kvartað er til umboðsmanns.

Kvörtun í máli einstaklings eða lögaðila verður þannig að lúta að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum stjórn­valda sem beinast sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snerta beinlínis hagsmuni hans eða réttindi. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að umboðsmaður veiti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningum. Af þessu leiðir einnig að umboðsmaður úrskurðar ekki um réttindi eða skyldur einstaklinga og lögaðila vegna samskipta þeirra við stjórnvöld heldur veitir hann, að tilteknum lögbundnum skilyrðum fullnægðum, þeim sem þess óskar álit sitt á því, eftirá, hvort stjórnsýsla hafi farið fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og þær siðareglur sem tilgreindar eru í lögunum.

Af kvörtuninni verður ekki ráðið að þér hafið komið sjónarmiðum yðar á framfæri við heilbrigðis- eða sóttvarnayfirvöld og fengið viðbrögð við þeim eða að mál yðar hafi enn sem komið er verið lagt í sérstakan farveg innan stjórnsýslunnar. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið, og þar sem ekki verður séð að þér kvartið yfir tiltekinni athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds í framangreindum skilningi, þ.e. þau atriði sem þér tilgreinið í kvörtun yðar snerta ekki hagsmuni yðar eða réttindi með beinum hætti umfram aðra, er því ljóst að lagaskilyrði brestur til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.