Húsnæðismál.

(Mál nr. 11619/2022)

 

Kvartað var yfir úrskurði kærunefndar húsamála sem hafnaði kröfu um að viðurkennt yrði að félagi væri heimilt að ganga að tryggingu leigjenda vegna ástands hins leigða við lok leigutíma og flutnings á húsgögnum úr hinu leigða.

 

Umboðsmaður taldi ekki forsendur til að gera athugasemdir við meðferð málsins hjá nefndinni eða ályktanir hennar.

 

Umboðsmaður lauk málinu 6. apríl 2022.

 

 

Vísað er til kvörtunar A ehf. 22. mars sl. yfir úrskurði kærunefndar húsamála 15. febrúar sl. í máli nr. 115/2021. Með úrskurðinum hafnaði nefndin kröfu félagsins um að viðurkennt yrði að því væri heimilt að ganga að tryggingu leigjenda vegna ástands hins leigða við lok leigutíma og flutnings á húsgögnum úr hinu leigða.

Sá ágreiningur sem var til meðferðar hjá kærunefnd húsamála er einkaréttarlegur og fellur sem slíkur utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis eins og það er afmarkað í 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Á hinn bóginn er nefndin hluti af stjórnsýslu ríkisins og fellur af þeirri ástæðu undir eftirlit umboðsmanns, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997. Að því marki sem úrslausn nefndarinnar í einstöku máli byggist á mati á atvikum er umboðsmaður þó almennt ekki í stakk búinn til að taka slíkt mat til endurskoðunar liggi fyrir að nefndin hafi hagað störfum sínum í samræmi við lög og þær reglur sem gilda um störf hennar.

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 69. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 skulu leigjandi og leigusali eða umboðsmenn þeirra gera úttekt á ástandi hins leigða húsnæðis áður en afhending fer fram og við lok leigutíma. Sú úttektarskylda er áréttuð í 5. gr. leigusamnings A ehf. við leigjendur en þar segir að leigusali og leigutaki beri ábyrgð á að úttekt fari fram á hinu leigða húsnæði áður en afhending fari fram og við lok leigutíma. Slík úttekt skuli lögð til grundvallar ef ágreiningur verði um bótaskyldu við skil húsnæðis.

Í fyrrgreindum úrskurði kærunefndar húsamála var lagt til grundvallar að úttektir hefðu ekki verið gerðar í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 69. gr. húsaleigulaga og að A ehf. yrði að bera hallann af því. Var það mat nefndarinnar að gegn neitun leigjenda lægi ekki fyrir sönnun fyrir því að hið leigða hefði verið illa þrifið við lok leigutíma, að ástand þess hefði verið slíkt að það hefði útheimt alþrif á kostnað leigjenda eða að þær skemmdir sem félagið teldi hafa orðið á húsnæðinu væru af þeirra völdum. Þá hafnaði nefndin kröfu félagsins um að viðurkennt yrði að því væri heimilt að ganga að tryggingu leigjenda vegna flutnings á húsgögnum úr hinu leigða með vísan til þess að í leigusamningi væri ekki mælt fyrir um að hið leigða skyldi leigt með húsgögnum og að ekki yrði ráðið af rafrænum samskiptum málsaðila að leigjendur skyldu bera kostnað af flutningi og geymslu húsgagnanna.

Óumdeilt er að hvorki voru gerðar úttektir á hinu leigða við upphaf né lok leigutíma líkt og mælt er fyrir um í húsaleigulögum og leigusamningi félagsins við leigjendur. Að því virtu og eftir að hafa kynnt mér úrskurð nefndarinnar og fyrirliggjandi gögn tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við meðferð málsins eða ályktanir nefndarinnar. Þá verður ekki annað ráðið en að nefndin hafi við úrlausn málsins farið að þeim reglum sem gilda um störf hennar.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég umfjöllun minni um málið með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.