Útlendingar. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11615/2022)

 

Kvartað var yfir ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn um íslenskan ríkisborgararétt.

 

Af kvörtuninni varð ekki annað ráðið en úrlausn stofnunarinnar hefði verið kærð til dómsmálaráðuneytis og afstaða þess lægi ekki fyrir. Ekki voru því skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 7. apríl 2022.

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 13. mars sl. yfir ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn yðar um íslenskan ríkisborgara­rétt. 

Fjallað er um veitingu ríkisborgararéttar í lögum nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna er Útlendingastofnun heimilt að veita íslenskan ríkisborgararétt samkvæmt umsókn sem borin er fram af umsækjanda enda fullnægi hann skilyrðum 8. og 9. gr. laganna. Í 17. gr. laganna er kveðið á um að ákvarðanir Útlendingastofnunar samkvæmt lögunum sé hægt að kæra til dómsmálaráðuneytisins.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald þegar það á við, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Af kvörtun yðar verður ekki annað ráðið en að þér hafið kært úrlausn stofnunarinnar til dómsmálaráðuneytisins og að afstaða þess til málsins liggi ekki fyrir.

Með vísan til framangreinds eru ekki uppfyllt skilyrði til að taka kvörtun yðar til með­ferðar að svo stöddu og lýk ég því umfjöllun minni um hana, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni afstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til mín á ný með sérstaka kvörtun þar að lútandi.