Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11624/2022)

 

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds.

 

Í kvörtuninni gekkst viðkomandi við því að hafa lagt bíl sínum fyrir mistök í stæði ætluðu ökutæki fyrir fólk með fötlun. Taldi umboðsmaður ekki efni til að gera athugasemdir við lögmæti ákvörðunar sjóðsins.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 7. apríl 2022.

 

 

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 24. mars sl. sem lýtur að ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur 22. nóvember sl. um álagningu stöðubrotsgjalds fyrir brot gegn a-lið 2. mgr. 29. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Laut brotið að því að bifreið yðar hefði verið lagt á merktu stæði fyrir ökutæki fatlaðs fólks án þess að stæðiskort fyrir hreyfihamlaða væri sýnilegt í bifreiðinni.

Samkvæmt a-lið 2. mgr. 29. gr. umferðarlaga er að undanskildum þeim ökutækjum sem stæði eru ætluð bannað að stöðva eða leggja ökutæki á merktu stæði fyrir ökutæki fatlaðs fólks. Þá segir í 1. mgr. 87. gr. laganna að eingöngu handhafa stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða sé heimilt að leggja ökutæki í bifreiðastæði sem ætlað sé fyrir fatlaða og auðkennt með þar til gerðu umferðarmerki eða þar sem á annan hátt sé sannanlega gefið til kynna að um stæði fyrir ökutæki hreyfihamlaðs einstaklings sé að ræða. Í 3. mgr. sömu lagagreinar er mælt fyrir um að þegar ökutæki sé lagt í bifreiðastæði skuli stæðiskorti komið fyrir innan við framrúðu þannig að framhlið þess sé vel sýnileg að utan.

Í kvörtun yðar gangist þér við því að hafa lagt bifreiðinni í stæði sem ætlað er fyrir ökutæki fatlaðs fólks umrætt sinn en um mistök hafi verið að ræða vegna nánar tilgreindra ástæðna. Eftir að hafa kynnt mér þær tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við lögmæti ákvörðunar Bílastæðasjóðs.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.