Almannatryggingar. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11644/2022)

  

Kvartað var yfir útreikningi Tryggingastofnunar á greiðslum, nánar tiltekið skerðingu á sérstakri framfærsluuppbót vegna tilkomu dánarbóta sem viðkomandi hafði sótt um.

 

Ekki varð ráðið að málinu hefði verið skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála og því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 7. apríl 2022.

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 3. apríl sl. yfir útreikningi  Tryggingastofnunar á greiðslum til yðar fyrir aprílmánuð 2022, nánar tiltekið skerðingu á sérstakri framfærsluuppbót vegna tilkomu dánarbóta sem þér höfðuð sótt um.

Um greiðslu framangreindra bóta fer m.a. samkvæmt ákvæðum laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Í 3. mgr. 1. gr. laganna kemur fram að Tryggingastofnun annist greiðslur samkvæmt þeim lögum og í 13. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, sbr. 14. gr. laga nr. 99/2007, kemur fram að ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna sé kæranlegur til úrskurðarnefndar velferðarmála innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar. 

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald þegar það á við, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér hafið ekki leitað til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna máls yðar. Með vísan til þessa tel ég að svo stöddu ekki fullnægt skilyrði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 til að taka kvörtun yðar til með­ferðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér teljið yður enn beitta rangsleitni að fengnum úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála getið þér leitað til umboðsmanns Alþingis á ný með sérstaka kvörtun þar að lútandi.