Börn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Aðild.

(Mál nr. 11645/2022)

 

Óskað var eftir áliti umboðsmanns á lögmæti tiltekins atriðis í stjórnsýslu leikskólamála hjá Reykjavíkurborg.

 

Þar sem það er ekki hlutverk umboðsmanns að veita lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum um tiltekin málefni eða réttarsvið voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um erindið.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 7. apríl 2022.

 

 

Vísað er til erindis yðar 4. apríl sl. þar sem þér óskuðuð eftir áliti umboðsmanns Alþingis á lögmæti tiltekins atriðis í stjórnsýslu leikskólamála hjá Reykjavíkurborg.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. 4. gr. sömu laga að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir tilgreind ákvæði laganna, geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að almennt verður ekki kvartað til umboðsmanns nema kvörtunin snerti tiltekna athöfn eða ákvörðun stjórnvalds sem felur í sér beitingu stjórnsýsluvalds gagnvart þeim sem kvartar. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té, án þess að um tiltekna athöfn eða ákvörðun stjórnvalds sé að ræða í ofangreindum skilningi, lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum um tiltekin málefni eða réttarsvið.

Af kvörtun yðar og símtali starfsmanns umboðsmanns við yður 6. apríl sl. verður ekki ráðið að hún beinist að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds í ofangreindum skilningi. Orðalag í kvörtun yðar ber með sér að með henni sé óskað eftir lögfræðilegri álitsgerð umboðsmanns um það málefni sem hún beinist að. Þegar af þessari ástæðu eru með vísan til ofangreinds ekki að lögum skilyrði til þess að ég taki erindi yðar til frekari meðferðar sem kvörtun.

Með vísan til þess sem að framan greinir og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég málinu hér með lokið.