Fjölmiðlun. COVID-19. Stjórnsýslunefnd.

(Mál nr. 11597/2022)

 

Kvartað var yfir ákvörðun fjölmiðlanefndar um að ekki væru forsendur til að taka erindi til efnislegrar meðferðar en erindið laut að því að umfjöllun tilgreindra fjölmiðla um bólusetningar gegn Covid-19 hefði verið í ósamræmi við ákvæði laga um fjölmiðla.

 

Af niðurstöðu nefndarinnar varð ekki annað ráðið en hún hefði tekið erindið til skoðunar og í kjölfarið lagt mat á það á grundvelli þeirra lagaákvæða sem hún taldi eiga við í málinu og heyrðu undir eftirlit hennar. Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að nefndin hefði ekki kynnt sér kvörtunina nægilega, byggt hefði verið á ófullnægjandi upplýsingum eða að nefndin hefði dregið óforsvaranlegar ályktanir við meðferð málsins. Með tilliti til lögbundinna verkefna hennar taldi hann sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við afstöðu nefndarinnar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. apríl 2022.

 

 

I

Vísað er til kvörtunar yðar 11. mars sl. fyrir hönd A yfir ákvörðun fjölmiðlanefndar 1. febrúar sl. í máli nr. 2021-2529. Niðurstaða fjölmiðla­nefndar var að ekki væru forsendur til að taka erindi yðar 15. desember sl. fyrir hönd A til nefndarinnar til efnislegrar meðferðar, en erindið laut að því að umfjöllun tilgreindra fjölmiðla um bólusetningar gegn Covid-19 hefði verið í ósamræmi við 26. og 27. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla. Að beiðni umboðsmanns Alþingis bárust gögn málsins frá nefndinni 22. mars sl.

 

II

Kvörtun yðar byggist m.a. á því að málsmeðferð fjölmiðlanefndar hafi ekki verið í samræmi við lög. Um það er einkum vísað til þess að téð ákvörðun hafi verið tekin á fundi fjögurra nefndarmanna en ekki fimm, að ekki hafi verið tekin fullnægjandi afstaða til hæfis þeirra á fundi nefndarinnar og óljóst sé hvort ákvörðunin hafi verið tekin af nefndinni þar sem hún hafi aðeins verið undirrituð af formanni hennar.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 38/2011 er fjölmiðlanefnd sjálfstæð stjórnsýslunefnd og í 1. mgr. 8. gr. sömu laga er kveðið á um að ráðherra skipi fimm manns í nefndina til fjögurra ára í senn og jafnmarga varamenn. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. starfsreglna nefndarinnar nr. 1363/2011 er hún bær til þess að taka ákvarðanir ef þrír nefndarmenn sitja fund eða varamenn í forföllum þeirra, sbr. einnig til hliðsjónar ákvæði 1. mgr. 34. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í ársskýrslu nefndarinnar fyrir árið 2021 kom fram að einn nefndarmanna hefði látið af störfum 30. september sl. en eftir því sem fram kemur á vefsíðu nefndarinnar eru nefndarmenn nú fjórir auk þriggja varamanna. Þótt ekki liggi fyrir hvers vegna annar nefndarmaður hafði ekki verið skipaður eða hvort varamaður hafi verið boðaður á fund nefndarinnar þegar umrædd ákvörðun var tekin tel ég ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar á þessum þætti málsins í ljósi þess að nefndin var ályktunarhæf umrætt sinn. Þá tel mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við þá framkvæmd að formaður nefndarinnar undirriti ákvarðanir fyrir hönd nefndarinnar. Er þá haft í huga að í téðu máli fór ekki milli hluta hvaða nefndarmenn stóðu að afgreiðslu málsins.

 

III

Í kvörtun yðar eru einnig gerðar efnislegar athugasemdir við fyrrgreinda ákvörðun fjölmiðlanefndar. Með lögum nr. 38/2011 er nefndinni falið það hlutverk að annast eftirlit samkvæmt lögunum og daglega stjórnsýslu á því sviði sem þau ná til, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Nefndin er sem fyrr greinir sjálfstæð stjórn­sýslunefnd sem heyrir undir menningar- og viðskiptaráðherra og telst hluti af þeirri stjórnsýslu sem umboðsmaður Alþingis hefur eftirlit með, sbr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Við athugun umboðsmanns á kvörtun vegna slíkra nefnda kemur það í hlut hans að hafa eftirlit með því að viðkomandi nefnd hafi leyst úr því máli sem kvörtun beinist að í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti.

Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 38/2011 kemur m.a. fram að fjölmiðla­nefnd taki ákvörðun um það hvort erindi sem berst henni gefi nægar ástæður til meðferðar en í 4. gr. starfsreglna fjölmiðlanefndar er vikið nánar að því mati. Þar kemur fram að ef erindi frá aðila uppfyllir kröfur samkvæmt 3. gr. taki fjölmiðlanefnd ákvörðun um hvort erindið gefi nægar ástæður til að hefja málsmeðferð. Við mat á því skal fjölmiðlanefnd hafa hliðsjón af málefnalegum sjónarmiðum sem þykja skipta máli í hverju tilviki fyrir sig. Eftirfarandi atriði geta m.a. skipt máli við mat fjölmiðla­nefndar á því hvort hefja beri rannsókn: a. að meint brot virðist vera alvarlegt, b. að fjölmiðlaveita sem kvartað er yfir hafi ekki látið af þeirri hegðun sinni sem var tilefni kvörtunar, c. að meðferð málsins fari saman við þá forgangsröðun sem nefndin hefur ákveðið, sbr. 3. mgr. 8. gr. Í 5. gr. starfsreglnanna kemur fram að telji fjölmiðlanefnd að erindi gefi ekki nægar ástæður til meðferðar skuli hlutaðeigandi tilkynnt um þá niðurstöðu.

Þótt nefndin hafi heimild til þess að ákveða hvort erindi gefi nægar ástæður til að hefja málsmeðferð þýðir það ekki að mat nefndarinnar sé óheft, heldur verður hún eftir sem áður að byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum og gæta jafnræðis í úrlausnum sínum. Er þó almennt talið að við aðstæður sem þessar verði að ætla stjórnvaldi nokkurt svigrúm og fellur það ekki undir starfssvið umboðsmanns að endurskoða mat stjórnvaldsins að þessu leyti nema sýnt þyki af gögnum máls og öðrum upplýsingum að við matið hafi verið byggt á ómálefnalegum sjónarmiðum, fullnægjandi upplýsingar hafi ekki verið fyrir hendi eða að mat stjórnvaldsins og ályktanir þess hafi verið óforsvaranlegar.

Af niðurstöðu fjölmiðlanefndar verður ekki annað ráðið en að nefndin hafi tekið erindi yðar, fyrir hönd A, til skoðunar og í kjölfarið lagt mat á það á grundvelli þeirra lagaákvæða sem nefndin taldi eiga við í málinu og heyra undir eftirlit hennar. Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins, og í ljósi þess svigrúms sem fjölmiðlanefnd hefur á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laga nr. 38/2011 til að taka ákvörðun um hvort erindi sem berst henni gefi nægar ástæður til meðferðar, tel ég mig ekki hafa forsendur til að fullyrða að nefndin hafi ekki kynnt sér kvörtunina nægjanlega, byggt hafi verið á ófullnægjandi upplýsingum eða að nefndin hafi dregið óforsvaranlegar ályktanir við meðferð málsins. Með tilliti til lögbundinna verkefna fjölmiðlanefndar tel ég mig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við afstöðu nefndarinnar til erindisins.

 

IV

Með vísan til þess sem er rakið að framan lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.