Opinberir starfsmenn. Sérstakt hæfi. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir.

(Mál nr. 11406/2021)

 

Kvartað var yfir málsmeðferð setts mennta- og menningarmálaráðherra í tilefni af kvörtunum til ráðuneytisins yfir erfiðum samskiptum í tilteknum skóla, fyrst og fremst við rektor hans.

 

Gögn málsins báru ekki annað með sér en ráðuneytið hefði ákveðið að taka erindið til ítarlegrar athugunar á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna. Eftir að hafa kynnt sér fyrirliggjandi gögn, ítarlega málsmeðferð ráðuneytisins og að virtum lagagrundvelli málsmeðferðarinnar taldi umboðsmaðurinn ekki ástæðu til að gera efnislegar athugasemdir við hana. Þótt ekki yrði annað ráðið en meðferð málsins hjá ráðuneytinu hefði verið ómarkviss og ekki fyllilega ljóst á hvaða forsendum það taldi ákvæði stjórnsýslulaga eiga við í tilefni af kvörtununum taldi umboðsmaður kvörtunina ekki gefa nægilegt tilefni til athugunar á þeim grundvelli.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. apríl 2022.

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 19. nóvember sl. fyrir hönd A, B og C, fyrrum kennara við X, yfir málsmeðferð setts mennta- og menningarmálaráðherra í tilefni af kvörtunum umbjóðenda yðar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins 19. desember 2018 og 23. janúar 2019 yfir erfiðum samskiptum í skólanum, fyrst og fremst við rektor hans.

Svo sem gögn málsins bera með sér lauk athugun setts ráðherra á málunum með þremur bréfum 3. maí 2019. Í framhaldi af erindi yðar ákvað hann að taka málin aftur til meðferðar og lauk athugun sinni þá með þremur bréfum 27. apríl sl. Þar sem erindi umbjóðenda yðar voru tekin aftur til meðferðar eru ekki efni til að fjalla sérstaklega um athugasemdir yðar við meðferð þeirra mála sem lauk 3. maí 2019, heldur er athugun mín afmörkuð við kvörtun yðar að því marki sem hún beinist að þeirri málsmeðferð sem lauk með bréfunum 27. apríl sl.

Í samræmi við framangreinda afmörkun byggist kvörtun yðar annars vegar á því að starfsmenn fyrrgreinds ráðuneytis hafi verið vanhæfir sökum þess að skipaður mennta- og menningarmálaráðherra hafði lýst sig vanhæfan til meðferðar málanna. Hins vegar lýtur kvörtunin að því að athugun ráðuneytisins á málum umbjóðenda yðar hafi verið afmörkuð of þröngt miðað við umkvörtunarefni þeirra. Um það er vísað til þess að í bréfum ráðuneytisins 27. apríl sl. hafi aðeins verið fjallað um það hvort rektor skólans hafi lagt umbjóðendur yðar í einelti en ekki hafi verið vikið að athugasemdum þeirra um embættisfærslur hans, samskiptavanda í skólanum og vinnustaðamenningu.

Skipaður mennta- og menningarmálaráðherra lýsti sig vanhæfan til að koma að athugun á erindum umbjóðenda yðar vegna skyldleikatengsla við einn þeirra sem falla utan við þau tengsl sem fjallað er um í 2. tölulið 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um grundvöll vanhæfisins vísaði ráðherrann til 6. töluliðar sömu málsgreinar. Af gögnum málsins verður því ekki ráðið að hann hafi átt sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta af afdrifum athugunarinnar. Með vísan til þess verður ekki ráðið að efni séu til að gera athugasemdir við þá afstöðu að starfsmenn mennta- og menningarmálaráðuneytisins hafi ekki verið vanhæfir til að koma að meðferð málanna undir yfirstjórn setts ráðherra, sbr. til hliðsjónar 5. tölulið 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga.

Af fyrrgreindum erindum umbjóðenda yðar til ráðuneytisins 19. desember 2018 og 23. janúar 2019 verður ráðið að þeir hafi litið svo á að nokkur samskiptavandi væri innan skólans og aðeins einn þeirra hefði kvartað yfir einelti, líkt og nefnt er í kvörtun yðar. Lutu athugasemdir þeirra því m.a. að starfsumhverfi skólans, samskiptum innan hans, viðbrögðum stjórnenda við athugasemdum þeirra þar að lútandi og að hluta að samskiptum þeirra við rektor á starfsmannaréttarlegum grundvelli.

Í þessu ljósi er rétt að geta þess að málsmeðferð stjórnvalda og ákvarðanir þeirra á grundvelli laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, verður að jafnaði ekki skotið til æðra stjórnvalds, í þessu tilviki þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sbr. 49. gr. laganna. Eigi að síður fór ráðuneytið með yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart skólanum og gat því verið rétt og eftir atvikum skylt að bregðast við erindum um að starfsemi skólans væri á skjön við lög, þ.á m. reglugerð nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, í því skyni að staðreyna réttmæti slíkra ásakana og nýta þau úrræði sem það hafði sem æðra stjórnvald, sbr. t.d. IV. kafla laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands. Enn fremur gátu upplýsingar, sem ráðuneytið aflaði við athugun sína, gefið ráðherra tilefni til að meta hvort ástæða væri til að hefja starfsmannamál gagnvart rektor á grunni laga nr. 70/1996, en af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að slíkt mál hafi verið stofnað.

Gögn málsins bera ekki annað með sér en að ráðuneytið hafi ákveðið að taka til ítarlegrar athugunar erindi umbjóðenda yðar á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda þess gagnvart skólanum. Eftir að hafa kynnt mér fyrirliggjandi gögn um athugasemdir umbjóðenda yðar, ítarlega málsmeðferð ráðuneytisins og að virtum framanröktum lagagrundvelli málsmeðferðarinnar tel ég ekki ástæðu til að gera efnislegar athugasemdir við hana. Þótt ekki verði annað ráðið en að málsmeðferð ráðuneytisins hafi verið ómarkviss og ekki sé fyllilega ljóst á hvaða forsendum það taldi ákvæði stjórnsýslulaga eiga við í tilefni af kvörtunum umbjóðenda yðar tel ég að kvörtun yðar gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar á þeim grundvelli.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.