Landbúnaður. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11518/2022 & 11519/2022)

  

Kvartað var yfir úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun Matvælastofnunar um að svipta viðkomandi vörslu nautgripa að tilgreindu býli og framkvæmd þeirrar ákvörðunar af hálfu stofnunarinnar.

 

Af gögnum málsins varð ráðið að ágreiningurinn laut einkum að því hvort skilyrði hefðu verið til að svipta mennina vörslu dýranna. Benti umboðsmaður á að það yrði að vera hlutverk dómstóla að fjalla um það.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. apríl 2022.

 

 

 

Vísað er til kvartana yðar 26. janúar sl. fyrir hönd A og B yfir úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 18. janúar sl., þar sem staðfest var ákvörðun Matvælastofnunar 9. september sl. um að svipta þá vörslum nautgripa að tilgreindu býli, og framkvæmd þeirrar ákvörðunar af hálfu stofnunarinnar, en samkvæmt kvörtuninni var hún fyrirhuguð í lok janúarmánaðar á þessu ári.

Af fyrirliggjandi gögnum sem og kvörtunum yðar verður ráðið að ágreiningur málsins lúti einkum að því hvort skilyrði hafi verið uppfyllt til að ákveða að svipta A og B vörslum dýranna. Í þeim efnum var lagt til grundvallar í úrskurði ráðuneytisins að aðstæður og aðbúnaður nautgripa á umræddu býli hefðu að ýmsu leyti verið í andstöðu við lög auk þess sem A og B skorti nægjanlega getu og hæfni til að annast dýrin í samræmi við lög.

Umrædd ákvörðun Matvælastofnunar byggðist á 37. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra. Í 1. mgr. greinarinnar er kveðið á um að stofnuninni sé heimilt að taka ákvörðun um að svipta umráða­mann dýra vörslu þeirra, ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan til­greinds frests. Í 41. gr. sömu laga er mælt fyrir um að nú vilji umráðamaður dýrs ekki hlíta því að dýr sé tekið úr vörslu hans og geti hann þá borið ágreiningsefnið undir dómstóla. Slíkt fresti þó ekki aðgerðum eða framkvæmd slíkra ákvarðana samkvæmt 37. gr. laganna.

Samkvæmt c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Þá er gert ráð fyrir því í c-lið 2. mgr. 10. gr. sömu laga að varði kvörtun réttar­ágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt sé að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.

Af þessum ákvæðum auk annarra ákvæða laga um umboðsmann Alþingis verður ráðið að þau byggist á því að ákveðin verkaskipting sé milli umboðsmanns og dómstóla. Hafa þessi ákvæði verið skýrð þannig að það verði að jafnaði að vera hlutverk dómstóla að leysa úr málum sem snúast einkum um mat á atvikum, enda kunna slík mál að krefjast sönnunar­færslu, svo sem aðila- og vitna­skýrslna, sem dómstólar eru betur í stakk búnir að fást við. Að þessu virtu og að teknu tilliti til fyrrgreindra ákvæða laga nr. 55/2013 verður það að vera hlutverk dómstóla að fjalla um áðurnefnd ágreiningsefni málsins, sbr. til hliðsjónar t.d. álit umboðsmanns Alþingis 2. apríl 1996 í máli nr. 1317/1994. Með þessari ábendingu hefur þó engin afstaða verið tekin til þess hvort efni séu til að skjóta málinu til dómstóla.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtunum yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.