Kvartað var yfir samskiptum við Reykjavíkurborg vegna úthlutunar á félagslegu leiguhúsnæði í framhaldi af því að úrskurðarnefnd velferðarmála kvað upp úrskurð þar sem hún ógilti ákvörðun sveitarfélagsins um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis til viðkomandi.
Fyrir lá að málinu var ekki lokið af hálfu Reykjavíkurborgar og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 13. apríl 2022.
Vísað er til kvörtunar yðar 7. mars sl. sem lýtur að samskiptum yðar við Reykjavíkurborg vegna úthlutunar á félagslegu leiguhúsnæði í framhaldi af því að úrskurðarnefnd velferðarmála kvað upp úrskurð 10. febrúar sl. í enduruppteknu máli nr. 368/2019 þar sem nefndin ógilti ákvörðun sveitarfélagsins 12. júlí 2019 um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis til yðar.
Meðal þeirra gagna sem fylgdu kvörtuninni er bréf sveitarfélagsins 28. febrúar sl. Þar er m.a. gerð grein fyrir því að það sé meðal skilyrða þess að umsókn um félagslegt leiguhúsnæði sé samþykkt að umsækjandi sé ekki í vanskilum með leigugreiðslur við Félagsbústaði hf. Í bréfinu kemur fram að að þér eigið óuppgerða skuld að fjárhæð 606.181 kr. eftir að búið að er að fella niður hluta höfuðstóls, innheimtukostnað og dráttarvexti.
Í tilefni af kvörtuninni var Reykjavíkurborg ritað bréf þar sem þess var óskað að sveitarfélagið afhenti afrit af öllum gögnum sem snertu samskipti þess við yður eftir að fyrrnefndur úrskurður var kveðinn upp. Þess var jafnframt óskað að upplýst yrði um hvort það væri afstaða sveitarfélagsins að þér gætuð kært ákvörðun þess til úrskurðarnefndar velferðarmála ef lyktir málsins yrðu þær að synja umsókn yðar á grundvelli fyrrnefnds skilyrðis um að umsækjandi væri ekki í vanskilum við Félagsbústaði hf.
Í svarbréfi Reykjavíkurborgar 5. apríl sl. segir að þar sem skuld yðar hafi ekki verið gerð upp og ekki hafi náðst samkomulag um uppgjör hennar muni velferðarsvið sveitarfélagsins innan tíðar hefja það ferli að afturkalla stjórnvaldsákvörðun um að samþykkja umsókn yðar um húsnæði á biðlista. Komi til þess sæti sú ákvörðun kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Af ákvæðum laganna leiðir að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál séu þau enn til meðferðar hjá stjórnvöldum, sbr. m.a. 3. mgr. 6. gr. laganna. Þar segir að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hafi fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Þar sem fyrir liggur að málinu hefur ekki verið lokið af hálfu Reykjavíkurborgar eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar að svo stöddu.
Með vísan til þess sem er rakið að framan lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni af hálfu stjórnvalda að lokinni málsmeðferð þeirra getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.