Skipun nefndar.

(Mál nr. 11249/2021)

 

Kvartað var yfir samskiptum við mennta- og menningarmálaráðuneytið vegna skipunar nefndar.

 

Í skýringum ráðuneytisins kom fram að ekki hefði verið aflað viðeigandi fjárheimilda til að greiða fyrir starfrækslu nefndarinnar og ekki var ljóst hvort hún yrði fjármögnuð árið 2022. Þar sem erindi viðkomandi hafði verið svarað og staða málsins upplýst taldi umboðsmaður kvörtunina ekki gefa nægilegt tilefni til nánari athugunar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. apríl 2022.

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 16. ágúst sl. yfir samskiptum yðar við mennta- og menningarmálaráðuneytið vegna skipunar nefndar á grundvelli laga nr. 70/2019, um vandaða starfshætti í vísindum, en þá hafði ráðuneytið ekki svarað erindi yðar frá 18. júlí sama árs.

Í tilefni af kvörtun yðar var þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra ritað bréf 15. október sl. með vísan til 5. og 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Óskað var m.a. eftir upplýsingum um hvað liði skipun nefndar á grundvelli 5. gr. laga nr. 70/2019. Hefði nefndin ekki verið skipuð var sérstaklega óskað eftir upplýsingum um ástæður þess. Samkvæmt svarbréfi ráðuneytisins 1. nóvember sl. hafði hvorki verið aflað viðeigandi fjárheimilda til að greiða fyrir starfsrækslu nefndarinnar í fjárlögum árin 2020 né 2021 auk þess sem þá var ekki kunnugt um hvort nefndin yrði fjármögnuð árið 2022. Því væri hún enn sem komið er ekki starfrækt. Þá sagði í bréfinu að fyrrgreindu erindi yðar hefði ekki verið svarað fyrir mistök, en ekki verður annað ráðið en að úr því hafi nú verið bætt.

Sem fyrr greinir laut kvörtunin að samskiptum yðar við ráðuneytið um skipan umræddrar nefndar og að téðu erindi yðar hefði ekki verið svarað. Þar sem ekki verður annað ráðið en að erindinu hafi nú verið svarað sem og að ráðuneytið hefur upplýst um stöðu málsins tel ég að kvörtun yðar gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar af minni hálfu. Er umfjöllun minni um mál yðar því lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Þess skal þó getið að í framhaldinu verður metið hvort fyrirliggjandi upplýsingar gefi efni til að umboðsmaður hefji frumkvæðismál á grunni 5. gr. sömu laga, sbr. einnig 11. gr. laganna. Ég tek það fram að yður verður ekki kynnt sérstaklega niðurstaða þeirrar athugunar ef af henni verður, heldur verður þá upplýst um hana á heimasíðu embættisins.