Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. 11535/2022)

 

Kvartað var yfir að erindi til nefndar um eftirlit með lögreglu frá júní 2020 hefði ekki verið afgreitt.

 

Í svari frá nefndinni til umboðsmanns kom fram að hún hefði ekki tekið afstöðu til gagna sem henni bárust frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í nýliðnum mars. Þar sem málið var enn til meðferðar var ekki tilefni til að umboðsmaður aðhefðist frekar að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 20. apríl 2022.

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar frá 3. febrúar sl. sem lýtur að því að erindi yðar til nefndar um eftirlit með lögreglu frá 7. júní 2020 hafi ekki verið afgreitt.

Í tilefni af kvörtun yðar var nefnd um eftirlit með lögreglu ritað bréf 2. mars sl. þar sem óskað var eftir að nefndin veitti upplýsingar um hvað liði meðferð og afgreiðslu erindisins, þ.á m. hvort þær upplýsingar sem nefndin hafði óskað eftir frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með ákvörðun sinni nr. 22/2021 frá 17. mars 2021 hefðu borist nefndinni. Nú hefur borist svarbréf frá nefndinni 13. apríl sl. þar sem fram kemur að 17. mars sl. hafi nefndinni borist þau gögn sem hún hafi óskað eftir frá lögreglustjóranum. Tekið er fram í bréfinu að nefndin hafi ekki tekið afstöðu til gagnanna og þá hvort tilefni sé til að taka málið upp að nýju með hliðsjón af þeim hluta þess er lúti að meintum rangfærslum í skýrslum lögreglu.

Í ljósi framangreinds, og þeirra samskipta sem áttu sér stað í tilefni af fyrri kvörtun yðar um sama efni sem lauk með bréfi umboðsmanns til yðar 24. nóvember sl., verður að telja að máli yðar hafi verið fylgt eftir af hálfu nefndarinnar í framhaldi af ákvörðun hennar nr. 22/2021 frá 17. mars 2021 og að það sé þar til meðferðar. Tel ég því ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunar yðar að svo stöddu og lýk hér með athugun minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ef frekari tafir verða á afgreiðslu málsins, sem þér teljið óhóflegar, getið þér leitað til mín á ný.