Atvinnuleysistryggingar. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11549/2022)

 

Kvartað var yfir því að sá tími sem viðkomandi vann hjá fyrirtæki á grundvelli ráðningarstyrks teldist ekki til ávinnslutímabils atvinnuleysisbóta.

 

Af kvörtuninni varð hvorki ráðið að hún beindist að tiltekinni úrlausn stjórnvalds né að efni hennar hefði verið borið undir hlutaðeigandi stjórnvöld. Því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um erindið.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. apríl 2022.

 

 

I

Vísað er til kvörtunar yðar 9. febrúar sl., en ráðið verður af henni og þeim gögnum sem síðar bárust frá yður að hún lúti einkum að því að sá tími sem þér hafið starfað hjá fyrirtæki á grundvelli ráðningarstyrks teljist ekki til ávinnslutímabils atvinnuleysisbóta samkvæmt 15. eða 19. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Verður ráðið að styrkurinn hafi verið veittur á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða I í reglugerð nr. 918/2020, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði, í tilefni af átaksverkefni stjórnvalda „Hefjum störf“.

Í fyrrgreindu ákvæði, sem nú hefur fallið úr gildi, var kveðið á um heimild Vinnumálastofnunar til að gera samning við fyrirtæki um ráðningu atvinnuleitanda, sem taldist tryggður innan atvinnuleysis­tryggingakerfisins, enda teldist ráðningin vinnumarkaðsúrræði samkvæmt b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir. Í 7. mgr. ákvæðisins var m.a. kveðið á um að sá tími sem ráðning atvinnu­leitanda varði á grundvelli samningsins teldist ekki til ávinnslu­tímabils samkvæmt 15. eða 19. gr. laga nr. 54/2006, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. sömu laga. Í e-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram það skilyrði fyrir atvinnuleysis­tryggingu launamanns að hann hafi verið launamaður á ávinnslutímabili samkvæmt 15. gr. laganna í starfi sem sé ekki hluti af sérstökum vinnumarkaðsaðgerðum.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að þeir, sem telja sig hafa verið beitta rangsleitni af hálfu stjórnvalda, geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Til að umboðsmaður geti fjallað um mál í tilefni af kvörtun þarf hún því að beinast að tiltekinni ákvörðun eða athöfn. Þá segir í 3. mgr. 6. gr. laganna að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Ástæða þess að framangreint er rakið er að af kvörtun yðar verður hvorki ráðið að hún beinist að tiltekinni úrlausn stjórnvalda né að þér hafið borið efni hennar undir hlutaðeigandi stjórnvöld, þ.e. Vinnumálastofnun, og eftir atvikum úrskurðarnefnd velferðarmála, en samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 54/2006 kveður nefndin upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna, sbr. einnig 9. gr. laga nr. 55/2006. Af þessum sökum eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að fjalla frekar um kvörtun yðar. Ef þér farið þá leið að leggja kvörtunarefnið undir áðurnefnd stjórnvöld og eruð enn ósáttar að fenginni afstöðu þeirra getið þér leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds læt ég máli yðar lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.