A kvartaði meðal annars yfir því, hvernig gerð virðisaukaskattsskýrslna væri hagað. Í bréfi mínu til A, dags. 7. febrúar 1992, tók ég fram, að í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, væri tekið fram, að fjármálaráðherra ákvæði með reglugerð, hvað koma skyldi fram í skýrslu við uppgjör virðisaukaskatts. Í 4. gr. reglugerðar nr. 529/1989, um framtal og skil á virðisaukaskatti, væri svo fyrir mælt, að ríkisskattstjóri ákvæði, hvaða upplýsingar skyldi gefa á skýrslum þessum. Þá vísaði ég til þess, að samkvæmt 1. mgr. 49. gr. fyrrnefndra laga gæti fjármálaráðherra með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Síðan sagði svo í bréfi mínu:
„Það er skoðun mín með hliðsjón af framangreindum lagaheimildum, að mál það, sem kvörtun yðar lýtur að, verði borið undir fjármálaráðuneytið til úrskurðar. Af bréfi yðar verður ekki ráðið, að það hafi þér gert. Ástæða þess að ég tek framangreint fram er sú, að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu.“
Ég tjáði því A, að það væri niðurstaða mín samkvæmt framansögðu, að ekki væru skilyrði til þess, að svo stöddu, að ég fjallaði frekar um málið, en hann gæti leitað til mín á ný, teldi hann sig enn órétti beittur að fengnum úrskurði fjármálaráðherra.