Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11598/2022)

Kvartað var yfir því að Heilbrigðiseftirlit Austurlands, Fjarðabyggð og A hf. hefðu ekki brugðist með fullnægjandi hætti við athugasemdum um að hávaði frá atvinnustarfsemi þess síðastnefnda væri yfir leyfilegum mörkum. Einnig voru gerðar athugasemdir við úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem hafnaði kröfu um ógildingu tiltekinnar ákvörðunar bæjarráðs Fjarðabyggðar.

Þar sem A hf. er hlutafélag og því einkaréttarlegur aðili féll það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um athafnir félagsins. Samkvæmt gögnum málsins var það enn til meðferðar hjá heilbrigðiseftirlitinu og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þátt þess að svo stöddu. Hvað úrskurð nefndarinnar snerti taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemd við niðurstöðu hennar að hafna kröfu um að ógilda ákvörðun bæjarráðsins.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. apríl 2022.

 

 

I

Vísað er til kvartana yðar 12. og 13. mars sl. yfir því að Heilbrigðis­eftirlit Austurlands, Fjarðabyggð og A hf. hafi ekki brugðist með fullnægjandi hætti við athugasemdum yðar um að hávaði frá atvinnu­starfsemi síðastefnds félags sé yfir leyfilegum mörkum, en íbúðarhús yðar mun vera í nágrenni við atvinnuhúsnæði félagsins.

Í kvörtun­inni eru einnig gerðar athugasemdir við úrskurð úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála 11. febrúar sl. í máli nr. 138/2021. Samkvæmt úrskurðarorði hafnaði nefndin kröfu yðar um ógildingu tilgreindrar ákvörðunar bæjarráðs Fjarðabyggðar um að samþykkja umsókn A hf. um byggingarleyfi vegna við­byggingar og breytinga innanhúss að [...]. 

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í samræmi við þetta hlutverk er kveðið á um það í 3. gr. sömu laga að starfssvið umboðs­manns taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en að jafnaði tekur það ekki til starfsemi einkaaðila nema að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þar sem A hf. er hlutafélag og því einkaréttarlegur aðili fellur það samkvæmt framangreindu ekki undir starfssvið umboðsmanns að fjalla um athafnir félagsins. Af þeim sökum hefur athugun embættis­ins lotið að störfum heilbrigðiseftirlitsins og sveitarfélags­ins og fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála.

 

II

Um hávaða er fjallað í samnefndri reglugerð nr. 724/2008 sem var sett með stoð í ákvæðum laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar er markmið hennar að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum af völdum hávaða. Í 2. mgr. 12. gr. hennar kemur fram að heilbrigðisnefndir skulu hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar. Þær skulu eftir þörfum framkvæma eða láta framkvæma eftirlitsmælingar á hávaða. Í 12. gr. er því næst kveðið á um að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt reglugerðinni geti heilbrigðisnefnd veitt áminn­ingu, veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta eða stöðvað eða takmarkað viðkomandi starfsemi eða notkun þar sem það á við til að koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða.

Svo sem Heilbrigðis­eftirlit Austurlands hefur leiðbeint yður um sæta stjórnvaldsákvarðanir, sem eru teknar á grundvelli reglugerðar­innar, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 65. gr. laga nr. 7/1998. Enn fremur leiðir af 4. mgr. 9. gr. stjórn­sýslu­laga, sbr. 8. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, að dragist afgreiðsla máls óhæfilega er unnt að kæra það til nefndarinnar.

Ástæða þess að framangreind ákvæði eru rakin er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórn­valds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af þessu ákvæði leiðir að umboðs­maður fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en það hefur verið leitt til lykta innan stjórnsýslunnar.

Samkvæmt gögnum sem fylgdu kvörtunum yðar og þeim sem bárust embætti umboðsmanns 25. mars sl. verður ráðið að þótt samskipti yðar við stjórnvöld vegna málsins hafi staðið yfir um nokkurn tíma sé það nú til meðferðar hjá heilbrigðiseftirlitinu og fyrirhugað sé að meta hvort þvingunarúrræðum samkvæmt reglugerð nr. 724/2008 skuli beitt, sbr. einkum tölubréf eftirlitsins 14. og 15. mars sl. Af þeim sökum og með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 eru að svo stöddu ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að því marki sem hún beinist að heilbrigðiseftirlitinu og sveitar­félaginu. Þegar málið hefur verið endanlega leitt til lykta innan stjórnsýslunnar getið þér leitað aftur til umboðsmanns teljið þér þá efni til þess.

 

III

Í fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála var deilt um áðurnefnt byggingarleyfi, en krafa yðar um ógildingu ákvörðunar sveitarfélagsins byggðist einkum á því að hávaði frá starfsemi á viðkomandi fasteign yrði yfir þeim mörkum sem getið væri um í reglugerð nr. 724/2008.

Í úrskurði nefndarinnar kom fram að eðli máls samkvæmt væri ekki mögulegt að mæla mun á hávaða frá starfseminni fyrir og eftir framkvæmdir fyrr en að þeim afstöðnum. Yrði því að telja að með útreikn­ingum á hávaða hefði málið að því leyti verið nægjanlega upplýst áður en hið kærða byggingarleyfi var samþykkt. Mörk samkvæmt útreikn­ingum væru undir þeim mörkum sem væru tilgreind í töflu III sem fylgir téðri reglugerð. Af þeim sökum og þar sem ekki lægi fyrir að leyfið væri haldið form- eða efnisannmörkum var kröfu yðar hafnað. Þá benti nefndin á að ef hin kærða framkvæmd leiddi til hávaða umfram leyfileg mörk væri unnt að leita til heilbrigðisnefndar sem léti framkvæma eftirlitsmælingar á hávaða og gæti eftir atvikum beitt þvingunar­úrræðum.

Eftir að hafa kynnt mér fyrirliggjandi gögn og með vísan til þess sem kom fram í úrskurði nefndarinnar og rakið var í II. kafla hér að framan tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að hafna kröfu yðar.

 

IV

Með vísan til framangreinds er umfjöllun minni um erindi yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.