Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11602/2022)

 

Kvartað var yfir löngum biðtíma til að komast í sáttameðferð og fá útgefið sáttavottorð hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

 

Í svari frá sýslumanni kom fram að biðtími frá því að máli væri vísað til sáttameðferðar og þar til hún hæfist væri allt að þrír mánuðir. Reikna mætti með að þessu tiltekna máli yrði úthlutað til sáttamanns í lok apríl.  Ekki var því ástæði fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. apríl 2022.

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 13. mars sl. yfir því hve langur biðtími sé hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu til að komast að í sátta­meðferð og fá útgefið sáttavottorð.

Í tilefni af kvörtun yðar var sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu ritað bréf 28. mars sl. og þess óskað að embættið upplýsti hvort mál yðar væri til meðferðar hjá því og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þess. Mér hefur nú borist svar embættisins 7. apríl sl. þar sem fram kemur að biðtími frá því að máli sé vísað til sáttameðferðar og þar til hún hefst sé allt að þrír mánuðir. Reikna megi með að máli yðar verði úthlutað til sáttamanns í lok aprílmánaðar, en því hafi verið vísað til sáttameðferðar 28. janúar sl.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að málsmeðferðartíma sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu vegna sáttameðferðar og embættið hefur upplýst að reikna megi með að málinu verði úthlutað til sáttamanns í lok apríl­mánaðar tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar. Lýk ég því meðferð minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. 

Vegna kvörtunar yðar tel ég hins vegar rétt að vekja athygli yðar á því að umboðsmaður hefur haft til skoðunar afgreiðslutíma mála hjá sýslumanninum á höfuðborgar­svæðinu, þ.á m. í sifjamálum. Í tilefni af þeirri athugun hefur dóms­málaráðuneytið greint mér frá ýmsum atriðum sem ráðuneytið og sýslu­maðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafa ráðist í til úrbóta. Má þar m.a. nefna skipulagsbreytingar, endurskoðun verklags og endurmenntun starfs­fólks. Nánari umfjöllun um þetta má nálgast á vefsíðu umboðs­manns, www.umbodsmadur.is.