Námslán og námsstyrkir. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11606/2022)

 

Kvartað var yfir Menntasjóði námsmanna, m.a. vegna „útivistardóms“ og hvernig og á hvaða forsendum málið hafi farið í þann farveg.

 

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa dómstóla voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um málið.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. apríl 2022.

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 14. mars sl. þar sem þér gerið athugasemdir við starfshætti Menntasjóðs námsmanna, áður Lánasjóðs íslenskra náms­manna, á undanförnum áratugum. Í niðurlagi kvörtunarinnar kemur fram að óskað sé eftir að umboðsmaður Alþingis fjalli um mál yðar þótt „útivistardómur“ hafi verið kveðinn upp í málinu og árangurslaust fjárnám verið gert hjá lánþega og ábyrgðarmanni. Málið snúist um það hvernig og á hvaða forsendum málið hafi farið í þann farveg.

Í 1. mgr. 113. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er kveðið á um að hafi útivist orðið af hálfu stefnda, hann hafi ekki skilað greinargerð, kröfur stefnanda séu þess efnis að unnt sé að fullnægja þeim með aðför og dómari telji málatilbúnað stefnanda í engu áfátt þannig að taka megi kröfur hans til greina, sbr. 1. mgr. 96. gr., megi dómari ljúka máli með því að rita á stefnu að dómkröfurnar séu aðfararhæfar, svo og ákvörðun um málskostnað. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að áritun dómara á stefnu samkvæmt 1. mgr. hafi sama gildi og dómur.

Ástæða þess að athygli yðar er vakin á framangreindu er að samkvæmt b-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans ekki til starfa dómstóla. Í þessu ákvæði felst að umboðsmaður endurskoðar hvorki niðurstöður dóms né þau málsatvik eða málsástæður sem þegar hafa hlotið meðferð fyrir dómstólum. Þar sem ekki verður annað ráðið af kvörtun yðar en að það eigi við um mál yðar fellur utan starfssviðs umboðsmanns að taka kvörtunina til frekari meðferðar. Lýk ég því athugun á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.