Kvartað var yfir því að forsætisráðherra hefði ekki lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, innan tímamarka samkvæmt ákvæði til bráðabirgða við lögin. Einnig laut kvörtunin að því efnislega að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefði ekki verið lögfestur þrátt fyrir þingsályktun frá 2019. Ef af lagasetningunni hefði orðið hefði það haft þýðingu fyrir réttarstöðu viðkomandi.
Starfssvið umboðsmanns tekur að jafnaði ekki til starfa Alþingis og stofnana þess og því fellur það almennt utan hlutverks hans að taka afstöðu til athafna ráðherra sem einungis eru taldar liður í stjórnmálastarfi eða störfum á Alþingi. Ekki voru því skilyrði til að hann fjallaði frekar um kvörtunina.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 20. apríl 2022.
Vísað er til kvörtunar yðar 17. mars sl. fyrir hönd A yfir því að forsætisráðherra hafi ekki lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum nr. 85/2018, um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, innan tímamarka samkvæmt ákvæði til bráðabirgða við lögin. Kvörtunin lýtur einnig að því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hafi ekki verið lögfestur þrátt fyrir þingsályktun Alþingis 3. júní 2019. Kvörtunin byggist á því að það hefði haft þýðingu fyrir réttarstöðu A ef af téðri lagasetningu hefði orðið.
Í fyrrgreindu ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 85/2018 kemur fram að forsætisráðherra skuli innan árs frá gildistöku laganna, sem var 1. september 2018, leggja fram á Alþingi frumvarp þar sem kveðið verði á um að lögunum verði breytt þannig að þau gildi ekki eingöngu um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna heldur einnig óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar, sbr. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Svo sem greinir í kvörtun yðar liggur nú fyrir að forsætisráðherra lagði fram frumvarp á Alþingi í þessa veru 10. desember sl., sbr. þingskjal 170. Eru því ekki efni til að fjalla frekar um þennan þátt kvörtunar yðar.
Samkvæmt áðurnefndri ályktun 3. júní 2019 fól Alþingi ríkisstjórninni að undirbúa lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Frumvarpi, sem feli í sér lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum, verði lagt fram á Alþingi með það að markmiði að samningurinn verði lögfestur eigi síðar en 13. desember 2020.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í samræmi við þetta hlutverk er kveðið á um það í 3. gr. sömu laga að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en samkvæmt a-lið 4. mgr. sömu greinar tekur starfssviðið að jafnaði ekki til starfa Alþingis og stofnana þess.
Ástæða þess að framangreint er rakið er að það leiðir af stjórnarskrá og þeim hefðum sem fylgt hefur verið hér á landi að verkefni ráðherra er annars vegar að móta stefnu og leggja fram tillögur um hvernig bregðast skuli við þeim aðstæðum sem upp koma í þjóðfélaginu. Hins vegar fara þeir með framkvæmdarvald og koma þannig fram sem æðstu handhafar stjórnsýslu þeirra ráðuneyta sem þeir fara með. Í samræmi við fyrrgreind lagaákvæði um starfssvið umboðsmanns Alþingis fellur það almennt utan við hlutverk hans að lögum að taka afstöðu til athafna ráðherra sem einungis verða taldar liður í stjórnmálastarfi hans eða störfum á Alþingi. Að teknu tilliti til þess hvernig fyrrgreind þingsályktun er orðuð tel ég að umkvörtunarefni yðar falli að þessu leyti utan starfssviðs umboðsmanns. Brestur því lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.
Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.