Kvartað var yfir skorti á rökstuðningi vegna ráðningar í starf lektors við Háskóla Íslands.
Af rökstuðningnum varð ekki annað ráðið en farið hefði fram mat og samanburður á því hversu vel umsækjendur uppfylltu settar kröfur og fékk það einnig stoð í öðrum fyrirliggjandi gögnum. Þá uppfyllti rökstuðningurinn sem veittur var kröfur stjórnsýslulaga. Að öllum málavöxtum virtum taldi umboðsmaður ekki tilefni til nánari athugunar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 20. apríl 2022.
Vísað er til kvörtunar yðar 22. mars sl. yfir skorti á rökstuðningi vegna ráðningar í starf lektors í stærðfræði við Háskóla Íslands sem þér sóttuð um. Segir í kvörtuninni að hvergi í ráðningarferlinu hafi verið gerður neinn samanburður á umsækjendum til grundvallar því hvaða umsækjanda var boðið starfið. Þar segir enn fremur:
„Ég tel óverjandi að opinber háskóli, sem á að leitast við að ráða til sín besta mögulega akademíska starfsfólk, taki ákvarðanir sem eru með öllu órökstuddar í svona mikilvægum málum fyrir hag skólans. Ekki bara fer það almennt í bága við hagsmuni eigenda skólans, almennings, heldur býður það upp á að fólk sé ráðið (og því hafnað) á ómálefnalegum forsendum, svo sem kunningsskap.“
Kvörtuninni fylgdu afrit af álitum dómnefndar og valnefndar á vegum háskólans, fundargerðir valnefndarinnar ásamt tölvubréfum milli yðar og tveggja starfsmanna háskólans.
Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, segir að forseti fræðasviðs veiti tímabundin akademísk störf við skóla og stofnanir sem heyra undir skóla í umboði rektors. Í 46. gr. reglna fyrir Háskola Íslands nr. 569/2009 kemur fram:
„Við val á hæfasta umsækjandanum skal höfð hliðsjón af stefnu deildar og uppbyggingu sem tengist umræddu starfi. Auk þess skal byggt á sjónarmiðum sem fram koma í 34. og 41. gr.
Valnefnd er heimilt í mati sínu að taka tillit til þess hversu líklegur umsækjandi er, út frá ferli hans, til að stuðla að þeim markmiðum sem deild og fræðasvið hefur sett sér.
Þá skal valið byggjast á frammistöðu í viðtali og fyrirlestri, ef ákveðið hefur verið að nýta það fyrirkomulag við gagnaöflun.“
Í þeim greinum reglnanna sem vísað er til í ákvæðinu er kveðið á um skilgreiningu starfs og mat dómnefndar á umsækjendum.
Í rökstuðningi sem háskólinn veitti yður með tölvubréfi lögfræðings 8. febrúar sl. sagði að ráðningin hefði byggst á þeim kröfum sem fram komu í auglýsingu um starfið og val milli umsækjenda hefði byggst á mati. Einnig kom fram að valnefnd hefði ákveðið, eftir gagngera skoðun umsóknargagna og dómnefndarálits, að bjóða sjö af 21 umsækjanda, sem taldist uppfylla lágmarksskilyrði, í viðtal. Enn fremur sagði í rökstuðningnum að í kjölfar viðtalanna hefði niðurstaða valnefndar, byggð á dómnefndaráliti, umsóknargögnum og viðtölum, orðið sú að leggja til að nafngreindur umsækjandi meðal þeirra sjö sem valnefndin ræddi við yrði ráðinn. Í áliti eða greinargerð valnefndar til sviðsforseta var auk þess vísað til kynningar eða fyrirlestrar umsækjenda og sjónarmiða sem getið var í auglýsingu umfram beinar hæfnikröfur. Verður því ekki annað séð en að tillaga valnefndar hafi að lokum byggst á því sem fram kom hjá umsækjendunum sjö í kynningum þeirra og viðtölum hjá nefndinni. Af rökstuðningnum verður því ekki annað ráðið en að fram hafi farið mat og samanburður á því hversu vel umsækjendur uppfylltu settar kröfur og fær það einnig stoð í öðrum gögnum sem liggja fyrir, þ.á m. fundargerðum og áliti valnefndar.
Með vísan til framangreinds og eftir að hafa kynnt mér gögn þau er fylgdu kvörtun yðar verður ekki annað ráðið en að umrædd ráðning lektors í stærðfræði og undirbúningur hennar hafi verið í samræmi við ákvæði laga um opinbera háskóla og reglna Háskóla Íslands um málsmeðferð og ákvarðanatöku við ráðningar akademískra starfsmanna. Enn fremur tel ég ekkert í gögnunum benda til annars en að háskólinn hafi aflað fullnægjandi upplýsinga um hæfni umsækjenda og að ákvörðunin hafi byggst á heildstæðum samanburði á grundvelli þeirra málefnalegu sjónarmiða sem háskólinn setti fram í auglýsingu um starfið. Þá uppfyllir efni þess rökstuðnings sem yður var veittur kröfur sem leiða af 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að þessu virtu tel ég að kvörtun yðar gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar.
Með vísan til alls þess sem að framan greinir og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég málinu hér með lokið.