Menntamál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11627/2021)

 

Kvartað var yfir því að Listaháskóli Íslands hefði ekki fallist á að meta námskeið frá Myndlistarskóla Reykjavíkur sem hluta náms viðkomandi við Listaháskólann.

 

Þar sem endanleg ákvörðun Listaháskólans hafði ekki verið borinn undir áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunarefnið.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. apríl 2022.

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 25. mars sl. yfir því Listaháskóli Íslands hafi ekki fallist á að meta sem hluta náms yðar við skólann námskeið sem þér hafið lokið við Myndlistaskóla Reykjavíkur.

Í 20. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, er fjallað um áfrýjunar­nefnd í kærumálum háskólanema. Þar segir að um málskot til nefndarinnar gildi ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga. Máli háskólanema verði þannig ekki skotið til nefndarinnar nema fyrir liggi endanleg ákvörðun háskóla um rétt eða skyldu nemandans. Þó sé nemanda heimilt að bera undir nefndina hvort málsmeðferð háskóla á skriflegu erindi hans hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti og skuli nefndin þá veita álit sitt um það efni. Í ákvæðinu er einnig mælt fyrir um að áfrýjunarnefndin endurmeti ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara.

Á grunni 20. gr. laga nr. 63/2006 hefur ráðherra sett reglur nr. 550/2020, um störf áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema. Í c-lið 1. mgr. 1. gr. reglnanna kemur fram að nefndin úrskurði í málum, þar sem námsmenn í opinberum háskólum og öðrum háskólum, sem hlotið hafa viðurkenningu ráðherra samkvæmt 3. gr. laga um háskóla telja brotið á rétti sínum vegna afgreiðslu umsókna um skólavist, þ.m.t. tilhögun mats á námi á milli skóla.

Ástæða þess að þetta er rakið er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að ágreiningur yðar við Listaháskóla Íslands, að fenginni endanlegri ákvörðun háskólans um ágreiningsefnið, hafi verið borinn undir áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema. Af þeim sökum eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Farið þér þá leið að freista þess að bera endanlega ákvörðun háskólans undir áfrýjunar­nefndina og teljið yður beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu hennar getið þér leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi.