Rafræn stjórnsýsla. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11631/2022)

 

Kvartað var yfir því að þeir sem væru staddir erlendis gætu hvorki virkjað rafræn skilríki frá Auðkenni ehf. með rafrænum hætti né í sendiráðum. 

 

Þar sem starfsemi Auðkennis ehf. fellur ekki undir starfssvið umboðsmanns voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 20. apríl 2022.

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 28. mars sl. yfir því að þeir sem staddir eru erlendis geti ekki virkjað rafræn skilríki frá Auðkenni ehf. með rafrænum hætti eða í sendiráðum.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans almennt til stjórnvalda ríkis og sveitarfélaga auk einkaaðila sem að lögum hefur verið falið opinbert vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir, sbr. 3. gr. laganna. Önnur starfsemi einkaaðila fellur að jafnaði ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er markað í lögum nr. 85/1997. Auðkenni er sem fyrr greinir einka­hlutafélag og því einkaréttarlegur aðili. Það fellur því utan starfs­sviðs umboðsmanns að fjalla um kvörtun yðar yfir starfsemi félagsins.

Rétt er að benda á að hafi yður verið synjað um þjónustu eða fyrirgreiðslu hjá opinberri stofnun eða gert ókleift að óska eftir henni vegna kröfu um að þér hafið rafræn skilríki getið þér lagt fram kvörtun sem lýtur að því og yrði hún eftir atvikum tekin til athugunar hjá umboðsmanni með tilliti til þeirra reglna sem gilda um viðkomandi málefni stjórnsýslunnar, að uppfylltum öðrum lagaskilyrðum.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 er umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið.