Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11636/2022)

 

Kvartað var yfir flutningi grunnnáms í garðyrkju frá Landbúnaðarháskóla Íslands til Fjölbrautaskóla Suðurlands og beindist kvörtunin að ráðherra menntamála ásamt stjórnendum beggja skólanna.

 

Af kvörtuninni varð ekki ráðið að fyrir lægju ákvarðanir eða athafnir af hálfu stjórnvalda vegna breytinga á fyrirkomulagi námsins sem fæli í sér að stjórnvöld hefðu beitt viðkomandi rangsleitni í skilningi laga um umboðsmann Alþingis. Auk þess varð ekki annað séð en málið væri enn til meðferðar innan stjórnsýslunnar og því ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtunina að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. apríl 2022.

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 29. mars sl. yfir flutningi grunnnáms í garðyrkju frá Landbúnaðarháskóla Íslands til Fjölbrautskóla Suðurlands og beinist kvörtunin að ráðherra menntamála ásamt stjórnendum beggja framangreindra skóla. Í kvörtuninni kemur fram að óvissu gæti um framkvæmd yfirstandandi flutnings meðal hlutaðeigandi starfsmanna landbúnaðar­háskólans, m.a. boðaðar uppsagnir þeirra og í framhaldinu ráðningar við fjölbrautaskólann. Af kvörtuninni sem og gögnum sem bárust embætti umboðsmanns frá yður 6. apríl sl. verður ráðið að um þessar mundir eigi fulltrúar starfsmanna í samskiptum við stjórnvöld um hinn fyrirhugaða flutning og framkvæmd hans.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 2. mgr. 4. gr. sömu laga segir að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem hefur með höndum stjórnsýslu geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Til að umboðsmaður geti fjallað um kvörtun þarf hún þannig að beinast að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalda í máli þess sem kvörtun ber fram. Af ákvæðum laganna leiðir enn fremur að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en það hefur verið leitt til lykta innan stjórnsýslunnar.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að fyrir liggi ákvarðanir eða athafnir af hálfu stjórnvalda vegna breytinga á fyrirkomulagi grunnnáms í garðyrkju sem feli í sér að stjórnvöld hafi beitt yður rangsleitni í skilningi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 auk þess sem ekki verður annað ráðið en að málið sé enn til meðferðar innan stjórnsýslunnar. Tel ég því ekki tilefni til að ég fjalli frekar um kvörtun yðar að svo stöddu og lýk því umfjöllun minni um hana, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.