Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Ágreiningi um tilkall til fullvirðisréttar verður skotið til landbúnaðarráðherra.

(Mál nr. 556/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 24. janúar 1992.

A leitaði til mín út af ágreiningsmáli um það, hvort hann ætti fullvirðisrétt og hefði yfirráð yfir honum. Í bréfi mínu til A, dags. 24. janúar 1992, sagði m.a. svo:

„Umræddur fullvirðisréttur til mjólkurframleiðslu verðlagsárið 1991/1992 er ákvarðaður með reglugerð nr. 262/1991, sem gefin var út af landbúnaðarráðherra með stoð í 58. gr. laga nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Samkvæmt 3. gr. nefndra laga fer landbúnaðarráðherra með yfirstjórn þeirra mála, sem lögin taka til.

Samkvæmt þessu getið þér borið umrætt deilumál undir landbúnaðarráðherra. Bendi ég yður á að fara þessa leið, þar sem ekki verður kvartað til umboðsmanns, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í máli, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmanns Alþingis og 2. tl. 1. mgr. 5. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis.“

Ég tjáði því A, að það væri niðurstaða mín samkvæmt framansögðu, að ekki væru skilyrði til þess, að svo stöddu, að ég fjallaði frekar um málið, en hann gæti borið fram kvörtun á ný við mig, ef hann teldi úrlausn landbúnaðarráðherra ekki viðunandi.