Lögreglu- og sakamál. Starfssvið umboðsmanns Alþingis. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11633/2022)

Kvartað var yfir þeirri ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að ákæra fimm manns í fimm aðskildum málum en ekki öll saman í einu máli.

Þar sem kvörtunin laut að ákvörðunum sem höfðu hlotið meðferð fyrir dómstólum og teknar voru meira en ári áður en hún var borin fram voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hana.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 25. apríl 2022.

 

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 28. mars sl. fyrir hönd A, B, C, D og E yfir þeirri ákvörðun lögreglu­stjórans á höfuðborgarsvæðinu að ákæra umbjóðendur yðar í fimm að­skildum málum 2. og 9. júní og 7. júlí 2020 í stað þess að ákæra þá saman í einu lagi í samræmi við 2. mgr. 143. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Þar kemur fram að ef fleiri menn en einn eru sóttir til saka fyrir þátttöku í sama verknaði skuli það gert í einu máli nema annað þyki hagkvæmara.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og til­greindar siðareglur. Í samræmi við þessi ákvæði er mælt fyrir um það í 3. gr. sömu laga að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga en samkvæmt b-lið 4. mgr. sömu greinar tekur það ekki til starfa dómstóla. Í þessu ákvæði felst að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um ákvarðanir stjórnvalda sem hafa hlotið með­ferð fyrir dóm­stólum og gefist hefur færi á að gera athugasemdir við á þeim vettvangi.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997 er fjallað um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Þar sem kvörtun yðar lýtur að ákvörðunum frá árinu 2020 er skilyrði þetta ekki uppfyllt, hvað sem líður framan­greindum ákvæðum um starfssvið umboðsmanns samkvæmt 3. gr. sömu laga. Þá tel ég að kvörtun yðar gefi ekki nægilegt tilefni til að embættið taki málið til meðferðar að eigin frumkvæði eða starfsemi og máls­meðferð stjórnvalda til almennrar athugunar á grunni 5. gr. laganna.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.