Gjaldeyrismál. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11664/2022)

Kvartað var yfir viðskiptum við Íslandsbanka.

Íslandsbanki er einkaréttarlegur aðili og féll umkvörtunarefnið utan starfssviðs umboðsmanns sem benti viðkomandi á að unnt væri að bera ágreining við banka undir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

 

Umboðsmaður lauk málinu 26. apríl 2022.

 

Vísað er til kvörtunar yðar 22. apríl sl. yfir viðskiptum yðar við Íslandsbanka hf.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en ekki til starfsemi einkaaðila nema að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Íslandsbanki er hlutafélag og því einkaréttarlegur aðili. Af þeim sökum og þar sem annað á ekki við um kvörtunarefnið fellur það utan starfssviðs umboðs­manns að fjalla um kvörtun yðar.

Með vísan til þess sem er rakið að framan eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar og er athugun á henni því lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Athygli yðar er vakin á að ágreining við banka er unnt að bera undir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.