Lögreglu- og sakamál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11605/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun nefndar um eftirlit með lögreglu.

Þar sem hluti af umkvörtunarefninu var enn til virkrar vinnslu hjá nefndinni voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallað um erindið að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 26. apríl 2022.

 

Vísað er til kvörtunar yðar frá 16. mars sl. sem lýtur að ákvörðun nefndar um eftirlit með lögreglu nr. 22/2021 frá 17. mars 2021.

Eins og rakið var í ákvörðuninni beinduð þér erindi til nefndar­innar 7. júní 2020 og gerðuð m.a. athugasemdir við meinta þátttöku lögreglu í [...], auk þess að gera athugasemdir við málsmeðferð lögreglu á kæru sem þér lögðuð fram árið 2013 hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og við meintar rangfærslur í endurriti á skýrslu yðar vegna kærunnar. Þér gerðuð þá athugasemdir við bréf [...] sem innihélt persónuupplýsingar um yður og við meinta vanrækslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á erindum yðar og beiðnum um afhendingu gagna.

Í ákvörðun sinni frá 17. mars 2021 tók nefndin athugasemdir yðar til skoðunar og lét í ljós afstöðu sína til hluta þeirra, m.a. með því að beina tilmælum til lögreglustjórans. Að því er snerti meintar rangfærslur í skýrslu lögreglunnar taldi nefndin ástæðu til þess að óska eftir frekari upplýsingum frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Fór nefndin því þess á leit við embættið að það léti henni í té afrit af endurriti skýrslutökunnar, ásamt upptökum af skýrslutökunni sjálfri.

Um gagnaöflun nefndarinnar í kjölfarið af ákvörðuninni 17. mars 2021 vísast m.a. til samskipta sem áttu sér stað í tilefni af kvörtunum yðar til umboðsmanns sem fengu málsnúmerin 11365/2021 og 11535/2022 í málaskrá embættisins. Líkt og rakið var í bréfi umboðsmanns til yðar 20. apríl sl. bárust nefndinni umbeðin gögn 17. mars sl., en hún hefur ekki tekið afstöðu til þeirra og þá hvort tilefni sé til að taka málið upp að nýju með hliðsjón af þeim hluta þess er lýtur að meintum rangfærslum í skýrslum lögreglu.

Í 35. gr. a. lögreglulaga nr. 90/1996 er fjallað um hlutverk nefndar um eftirlit með lögreglu, en meðal hlutverka hennar samkvæmt a- og b-lið 1. mgr. ákvæðisins er að taka við kæru á hendur starfsmanni lögreglu við framkvæmd starfa hans og að taka við kvörtunum vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að nefndin skuli yfirfara tilkynningar samkvæmt a- og b-lið 1. mgr. og greina hvort um sé að ræða kæru um ætlaða refsiverða háttsemi starfsmanna lögreglu eða kvörtun vegna ætlaðra ámælisverðra starfsaðferða eða framkomu starfs­manna lögreglu í samskiptum við borgarana. Þá segir í 3. mgr. að nefndin skuli senda viðeigandi embætti kæru eða kvörtun til meðferðar og í 4. mgr. 35. gr. a. kemur fram að nefndin skuli fylgjast með meðferð við­komandi embættis á erindum sem stafa frá henni og embætti sem fái til meðferðar kærur og kvartanir sem heyri undir nefndina skuli tilkynna henni um niðurstöður þeirra. Nefndin skuli einnig senda viðeigandi embætti eða eftir atvikum öðrum stjórnvöldum athugasemdir sínar við afgreiðslu einstakra mála eða tilmæli um aðrar aðgerðir ef henni þyki tilefni til þess.

Ástæða þess að framangreind lagaákvæði eru rakin er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram það skilyrði fyrir því að kvörtun verði tekin til meðferðar hjá honum að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega leitt til lykta.

Það er ljóst af framangreindu að hluti af kvörtun yðar til nefndar um eftirlit með lögreglu er enn í virkri vinnslu hjá nefndinni. Er mál yðar, sem kvörtun yðar til mín m.a. varðar, því enn til meðferðar hjá nefndinni. Af framangreindum sökum eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu, sbr. þau sjónarmið sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Vakin er athygli á því að þrátt fyrir að nefndin hafi lokið umfjöllun sinni um hluta af kvörtun yðar til hennar tel ég ekki tilefni að svo stöddu til þess að taka málið að því leyti til meðferðar, heldur verður fjallað um málið heildstætt komi til þess að þér leitið til mín á ný að fenginni niðurstöðu nefndarinnar um þann þátt málsins sem enn er til meðferðar hjá nefndinni. Eins og mál þetta er vaxið yrði því litið svo á, ákveðið þér að leita aftur til umboðsmanns, að ársfrestur sá sem fjallað er um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 hefði ekki byrjað að líða fyrr en að afstaða nefndarinnar til allra þátta kvörtunarinnar lægi fyrir.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.