Samgöngumál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11618/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun Samgöngustofu um að synja umsókn um leyfi til aksturs leigubifreiðar.

Ekki varð annað ráðið af kvörtuninni en kæruheimild til ráðuneytis hefði ekki verið nýtt og brast skilyrði til að fjalla um erindið.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 26. apríl 2022.

 

Vísað er til kvörtunar yðar 20. mars sl. yfir ákvörðun Samgöngustofu 29. nóvember 2019 um að synja umsókn yðar um leyfi til aksturs leigu­bifreiða.

Með kvörtuninni fylgdu gögn um samskipti yðar við stofnunina í framhaldi af því að umsókn yðar var synjað. Áréttaði stofnunin ítrekað að unnt væri að kæra ákvörðunina til samgöngu- og sveitar­stjórnar­ráðuneytisins, nú innviðaráðuneytið, líkt og yður hefði verið leið­beint um í téðri ákvörðun, sbr. einnig 4. gr. laga nr. 134/2001, um leigu­bifreiðar. Þar segir að ákvörðunum Samgöngustofu samkvæmt lögunum verði skotið til ráðherra og að um málsmeðferð fari eftir ákvæðum stjórn­sýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. þeirra laga skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Í 28. gr. laganna er fjallað um hvernig skuli bregðast við berist kæra að liðnum kæru­fresti. Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Ástæða þess að framangreint er rakið er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Í þessu ákvæði felst m.a. að hafi kæruheimild ekki verið nýtt eru ekki uppfyllt skilyrði til þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Þar sem ekki verður annað ráðið en að ákvörðun Samgöngustofu 29. nóvember 2019 hafi ekki verið kærð til ráðuneytisins brestur lagaskilyrði til að fjalla nánar um mál yðar.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.