Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Ágreiningi út af störfum ríkisskattstjóra verður skotið til fjármálaráðherra. Leiðrétting á staðgreiðsluskrá.

(Mál nr. 525/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 7. febrúar 1992.

A kvartaði yfir framkvæmd ríkisskattstjóra á lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. einkum IV. kafla laganna. Leiðrétting var gerð á launum A. Hins vegar skilaði leiðrétting á afdreginni staðgreiðslu sér ekki til ríkisskattstjóra af einhverjum ástæðum. Varð það til þess, að við álagningu opinberra gjalda fyrir tekjuárið 1990 var A endurgreidd fjárhæð vegna ofheimtrar staðgreiðslu. Ríkisskattstjóri tilkynnti A í bréfi, dags. 5. nóvember 1991, að breyting hefði verið gerð á staðgreiðsluskrá hennar til samræmis við framangreinda leiðréttingu.

Í bréfi mínu til A, dags. 7. febrúar 1992, sagði m.a. svo:

„Af gögnum málsins verður ráðið, að kvörtun yðar lýtur ekki að álagningu opinberra gjalda á laun yðar vegna ársins 1990, heldur að framkvæmd við innheimtu þeirra og framkvæmd ríkisskattstjóra á lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. einkum IV. kafla laganna. Ég fæ hins vegar ekki séð að þau mistök, sem kunna að hafa orðið við greiðslu launa til yðar eða meðferð á upplýsingum um staðgreiðsluskil, séu þess eðlis að þau girði fyrir að ríkissjóður endurheimti það fé, sem endurgreitt var yður vegna þessara mistaka. Ef þér óskið eftir frekari úrlausn stjórnvalda um mál yðar, skal tekið fram að það er skoðun mín, að ágreiningur út af innheimtu opinberra gjalda og um störf Ríkisskattstjóra í þessum efnum verði skotið til fjármálaráðherra til úrskurðar. Ástæða þess, að ég nefni síðastgreint atriði er sú, að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu.“

Ég tjáði því A, að það væri niðurstaða mín samkvæmt framansögðu, að ekki væri tilefni til frekari afskipta minna af málinu og skilyrði brysti til þess að ég gæti fjallað frekar um mál það er kvörtun A laut að.