Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11566/2022)

Kvartað var yfir stöðubrotsgjaldi sem Bílastæðasjóður Reykjavíkur lagði á fyrir að leggja á merkt stæði fyrir ökutæki fatlaðs fólks án þess að hafa stæðiskort fyrir hreyfihamlaða eða aðstandendur þeirra.

Ljósmyndir af vettvangi gáfu ekki tilefni til að gera athugasemdir við ákvörðun bílastæðasjóðs.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 26. apríl 2022.

 

Vísað er til kvörtunar yðar 15. febrúar sl. yfir stöðubrotsgjaldi sem Bílastæðasjóður Reykjavíkur lagði á yður 8. sama mánaðar fyrir að hafa lagt tilgreindu öku­tæki á merkt stæði fyrir ökutæki fatlaðs fólks við fasteignina að Þórunnar­túni 2 án þess að hafa stæðiskort fyrir hreyfi­hamlaða eða aðstandendur þeirra. Gögn málsins bárust frá bíla­stæða­sjóði 7. apríl sl.

Af ljósmyndum af vettvangi umrætt sinn sem og öðrum ljós­myndum af téðu bílastæði verður ráðið að ökutæki yðar hafi verið lagt á merktu stæði fyrir ökutæki fatlaðs fólks. Þótt krap kunni að hafa skyggt á yfirborðs­merkingu bílastæðisins að hluta og annað ökutæki byrgt sýn á skilti við enda þess verður ekki annað ráðið af ljósmyndum en að stæðið hafi verið merkt með full­nægjandi hætti. Af þeim sökum og þar sem því er ekki borið við að yður hafi verið heimilt að leggja ökutæki yðar á merktu stæði fyrir ökutæki fatlaðs fólks tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við ákvörðun bílastæðasjóðs um að leggja á yður stöðubrotsgjald 8. febrúar sl.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.