Vegabréf og persónuskilríki. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11646/2022)

Kvartað var yfir útgáfu nafnskírteina sem nota mætti sem ferðaskilríki og því að Alþingi hefði ekki samþykkt löggjöf þess efnis.

Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis og því ekki skilyrði til að fjalla um kvörtunina.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréf 26. apríl 2022.

 

Vísað er til kvörtunar yðar 4. apríl sl. sem lýtur að útgáfu nafnskírteina sem nota megi sem ferðaskilríki og því að Alþingi hafi ekki samþykkt löggjöf þess efnis.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórn­völdum landsins, sbr. 2. gr. laganna. Starfssvið umboðsmanns er að þessu leyti afmarkað í 3. gr. sömu laga en samkvæmt a-lið 4. mgr. sömu greinar tekur starfssviðið að jafnaði ekki til starfa Alþingis og stofnana þess.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/1997 getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðs­manns Alþingis samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Kvörtun í máli einstaklings eða lögaðila verður þannig að lúta að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum stjórn­valda sem beinast sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snerta beinlínis hagsmuni hans eða réttindi. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að umboðsmaður veiti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningum.

Af kvörtun yðar, eins og hún er fram sett, verður ekki annað ráðið en að hún beinist almennt að því að íslensk stjórnvöld hafi ekki hafið útgáfu nafnskírteina, eða svokallaðra kennivottorða, sem nota megi sem ferðaskilríki. Tafir þar af lútandi megi rekja til skorts á lagasetningu þess efnis. Í ljósi þess að kvörtun yðar beinist ekki að tiltekinni athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds í framan­greindum skilningi og með vísan til þess að umboðsmanni er ekki falið að fjalla um störf Alþingis brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.