Heilbrigðismál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11661/2022)

Kvartað var yfir Landspítalanum og sjúkdómsgreiningu sem fékkst fyrir 20-30 árum.

Ekki varð ráðið að leitað hefði verið með erindið til landlæknis og það lagt í farveg innan stjórnsýslunnar. Því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 26. apríl 2022.

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 19. apríl sl. sem beinist að Landspítala og lýtur að sjúkdómsgreiningu yðar fyrir 20-30 árum.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, skal starfrækja embætti landlæknis undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna skal landlæknir hafa reglubundið eftirlit með því að heilbrigðisþjónusta sem veitt er hér á landi uppfylli faglegar kröfur og ákvæði heilbrigðislöggjafar á hverjum tíma. Í 12. gr. laganna er fjallað um kvörtun til landlæknis og kemur þar fram í 2. mgr. að heimilt sé að beina formlegri kvörtun til hans vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt ákvæðinu er notendum heilbrigðisþjónustu jafnfram heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg. Í 4. mgr. 12. gr. laganna er mælt fyrir um að kvörtun skuli bera fram við landlækni án ástæðulauss dráttar. Þar segir einnig að séu meira en tíu ár liðin frá því að þau atvik gerðust sem eru tilefni kvörtunar sé landlækni rétt að vísa kvörtun frá nema sérstakar ástæður mæli með því að hans mati að kvörtun sé tekin til meðferðar. Samkvæmt 6. mgr. 12. gr. laganna er unnt að kæra málsmeðferð samkvæmt því ákvæði til heilbrigðis­ráðherra.

Ástæða þess að ég bendi yður á framangreint er sú að meðal skilyrða þess að umboðsmaður Alþingis taki mál til athugunar er að endanleg niðurstaða stjórnvalda í málinu liggi fyrir. Þetta leiðir af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og sjónarmiðum sem búa að baki því ákvæði um að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Þar sem ekki verður ráðið af kvörtun yðar að þér hafið leitað til landlæknis vegna málsins og það lagt í farveg innan stjórnsýslunnar brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til athugunar.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun vegna málsins. Fari svo að þér leitið til landlæknis og, eftir atvikum, heilbrigðisráðherra, vegna málsins og teljið yður enn beittan rangsleitni að því loknu getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi. Í tilefni af athugasemdum yðar um gjafsókn vek ég einnig athygli yðar á að gjafsóknarumsóknum skal beint til dómsmálaráðuneytisins.