Heilbrigðismál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11663/2022)

Kvartað var yfir bið eftir aðgerð á sjúkrahúsi. Jafnframt kom fram að viðkomandi hefði nú verið synjað um aðgerðina.

Ekki varð séð að leitað hefði verið til yfirstjórnar þeirrar heilbrigðisstofnunar sem um ræddi eða landlæknis með umkvörtunarefnið og það lagt í farveg innan stjórnsýslunnar. Því brast skilyrði til að umboðsmaður gæti tekið kvörtunina til athugunar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 26. apríl 2022.

 

Vísað er til kvörtunar yðar 12. apríl sl. Lýtur hún að því að þér hafið beðið í tæp tvö ár eftir aðgerð á sjúkrahúsi. Jafnframt kemur fram í kvörtuninni að yður hafi nú verið synjað um aðgerðina.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, er markmið laganna að tryggja sjúklingum tiltekin réttindi í samræmi við almenn mannréttindi og mannhelgi og styrkja þannig réttarstöðu þeirra gagnvart heilbrigðisþjónustunni og styðja trúnaðarsambandið sem ríkja ber milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna á sjúklingur rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita, þjónustu sem miðast við ástand hans og horfur á hverjum tíma og bestu þekkingu sem völ er á. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. á sjúklingur rétt á samfelldri þjónustu og að samstarf ríki á milli allra heilbrigðisstarfsmanna og stofnana sem hana veita. Þurfi sjúklingur að bíða eftir meðferð skal læknir, sem hann leitar til, gefa skýringar á biðinni ásamt upplýsingum um áætlaðan biðtíma, sbr. 1. mgr. 18. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. er skylt að gera sjúklingi grein fyrir því ef unnt er að fá þá meðferð sem hann þarfnast fyrr annars staðar. Ef nauðsynlegt reynist að forgangsraða sjúklingum vegna meðferðar skal fyrst og fremst byggt á læknisfræðilegum sjónarmiðum og eftir atvikum öðrum faglegum forsendum, s.s. greinir í 19. gr. laganna.

Í VII. kafla laganna er að finna ákvæði um rétt sjúklings til að kvarta. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. skal athugasemdum sjúklings vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar. Vilji sjúklingur kvarta yfir meðferð getur hann, samkvæmt 2. mgr. 28. gr. beint kvörtun til landlæknis þar um. Samkvæmt 3. mgr. 28. gr. er starfsmönnum heilbrigðisstofnunar skylt að leiðbeina sjúklingi eða vandamanni sem vill koma á framfæri athugasemd eða bera fram kvörtun. Samkvæmt 4. mgr. 28. gr. skal sjúklingur fá skrifleg svör eins fljótt og auðið er.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, skal starfrækja embætti landlæknis undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna skal landlæknir hafa reglubundið eftirlit með því að heilbrigðisþjónusta sem veitt er hér á landi uppfylli faglegar kröfur og ákvæði heilbrigðislöggjafar á hverjum tíma. Í 12. gr. laganna er fjallað um kvörtun til landlæknis og kemur þar fram í 2. mgr. að heimilt sé að beina formlegri kvörtun til hans vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt ákvæðinu er notendum heilbrigðisþjónustu jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg. Í 4. mgr. 12. gr. laganna er mælt fyrir um að kvörtun skuli bera fram við landlækni án ástæðulauss dráttar. Samkvæmt 6. mgr. 12. gr. laganna er unnt að kæra málsmeðferð samkvæmt því ákvæði til heilbrigðis­ráðherra.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að á meðal skilyrða þess að umboðsmaður Alþingis taki mál til athugunar er að endanleg niðurstaða stjórnvalda í málinu liggi fyrir. Þetta leiðir af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og sjónarmiðum sem búa að baki því ákvæði um að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Þar sem ekki verður ráðið af kvörtun yðar að þér hafið leitað til yfirstjórnar þeirrar heilbrigðisstofnunar sem um ræðir eða landlæknis vegna málsins og það lagt í farveg innan stjórnsýslunnar brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til athugunar.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun vegna málsins. Fari svo að þér leitið til landlæknis og, eftir atvikum, heilbrigðisráðherra, vegna málsins og teljið yður enn beitta rangsleitni að því loknu getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.