Heilbrigðismál. Starfssvið umboðsmanns Alþingis. Nauðungarvistun. OPCAT-eftirlit.

(Mál nr. 11625/2022)

Kvartað var yfir aðbúnaði á öryggisdeild Klepps. Meðal annars voru gerðar athugasemdir við að viðkomandi væri meinað að iðka trú sína á deildinni og gefin væru lyf sem yllu kvölum.

Hvað lyfjagjöfina snerti benti umboðsmaður á að ef tekin hefði verið ákvörðun um að viðkomandi sætti þvingaðri lyfjagjöf eða meðferð samkvæmt tilgreindum ákvæðum lögræðislaga væri gert ráð fyrir að slíkt mál sætti sérstakri meðferð fyrir dómi. Af þeim sökum væru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þann þátt kvörtunarinnar. Þá varð ekki annað ráðið af gögnum málsins en viðkomandi hefði verið gert kleift að iðka trú sína og því ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 5. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 24. mars sl. yfir aðbúnaði yðar á öryggis­deild Klepps. Meðal þess sem athugasemdir yðar samkvæmt kvörtuninni lutu að var að yður væri meinað að iðka trú yðar á deildinni, yður væru gefin lyf sem valdi kvölum og yður hefði ekki verið gefinn kostur á að undirbúa málstað yðar fyrir dómi vegna skorts á aðgangi að tölvu. Í ljósi erinda sem hafa borist frá yður síðar verður litið svo á að þér hafið fallið frá fyrri athugasemdum yðar um aðgang að tölvu á deildinni. Að beiðni umboðsmanns Alþingis bárust upp­lýsingar frá spítalanum með bréfi 26. apríl sl.

Í tilefni af athugasemdum yðar um lyfjagjöf skal þess getið að samkvæmt 2. mgr. 30. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 er þeim sem hefur verið gert að sæta þvingaðri lyfjagjöf eða meðferð samkvæmt 28. gr. sömu laga heimilt að bera þá ákvörðun undir dómstóla. Í 31. gr. lögræðislaga er því næst fjallað um málsmeðferð fyrir dómi, en samkvæmt ákvæðum þeirrar greinar er m.a. gert ráð fyrir að krafa á grunni 30. gr. laganna verði tekin fyrir án tafar og að þeim sem hana setur fram verði skipaður talsmaður samkvæmt ákvæðum laga um meðferð sakamála um verjendur. Í ákvæðinu er einnig mælt fyrir um að yfirlæknir viðkomandi deildar skuli þegar í stað láta í té athugasemdir sínar þar sem gerð er grein fyrir ástæðum þvingaðrar lyfjagjafar eða meðferðar og dómari skuli svo fljótt sem við verði komið kveða upp úrskurð um hvort ákvörðun um þvingaða lyfjagjöf eða meðferð skuli standa eða hún felld úr gildi.

Ástæða þess að framangreind ákvæði eru rakin er að í c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að starfssvið umboðsmanns taki ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Ef tekin hefur verið ákvörðun um að þér skulið sæta þvingaðri lyfjagjöf eða meðferð er samkvæmt áðurgreindum ákvæðum lögræðislaga gert ráð fyrir að slík mál sæti sérstakri meðferð fyrir dómi. Af þeim sökum og með vísan til c-liðar 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 fellur það ekki undir starfssvið umboðsmanns að fjalla frekar um athugasemdir yðar um þau lyf sem yður eru gefin.

Eftir að hafa kynnt mér athugasemdir yðar um aðbúnað yðar á Landspítala sem og upplýsingar sem bárust með áðurgreindu bréfi spítalans 26. apríl sl. tel ég að kvörtun yðar gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar, enda verður ekki annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að yður hafi verið gert kleift að iðka trú yðar. Í tilefni af athugasemdum yðar vek ég þó athygli á að umboðsmaður Alþingis hefur m.a. því hlutverki að gegna að hafa eftirlit með aðstæðum frelsissviptra á almennum grunni og hefur í því skyni heimsótt geðdeildir Landspítala að Kleppi og Hringbraut og gefið út skýrslur um þessar heimsóknir sem aðgengilegar eru á heimasíðu umboðsmanns. Athugasemdir yðar verða hafðar til hliðsjónar við áframhaldandi framkvæmd þessa eftirlits. Áréttað er að það hefur þó ekki áhrif á framangreinda niðurstöðu mína um að ekki sé nægilegt tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.