Heilbrigðismál.

(Mál nr. 11656/2022)

Kvartað var yfir heilbrigðisþjónustu vegna slyss árið 1978. Fram kom að heilbrigðisráðuneytið hefði með úrskurði staðfest þá niðurstöðu landlæknis að vísa frá kvörtun viðkomandi til embættisins vegna þessa.

Út frá gögnum málsins taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða annað en að ráðuneytið hefði í ljósi ákvæða laga um landlækni og lýðheilsu dregið forsvaranlegar ályktanir af gögnum málsins þegar það staðfesti niðurstöðu landlæknis.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 5. maí 2022, sem hljóðar svo:

Vísað er til kvörtunar yðar 13. apríl sl. yfir heilbrigðisþjónustu vegna slyss árið 1978. Í kvörtuninni og gögnum sem henni tilheyra kemur fram að heilbrigðisráðuneytið hafi með úrskurði 4. apríl sl. staðfest þá niðurstöðu landlæknis 22. október sl. að vísa frá kvörtun yðar til embættisins 3. september sl. yfir téðri heilbrigðisþjónustu.

Frávísun landlæknis grundvallaðist á 2. málslið 4. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, sem kveður á um að séu meira en tíu ár liðin frá því að þau atvik gerðust sem eru tilefni kvörtunar sé landlækni rétt að vísa kvörtun frá nema sérstakar ástæður mæli með því að hans mati að kvörtun sé tekin til meðferðar. Í úrskurði ráðuneytisins var fjallað um og lagt mat á hvort fyrir hendi hefðu verið  sérstakar ástæður sem mæltu með því að landlæknir tæki kvörtun yðar til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir að meira en fjórir áratugir væru liðnir frá þeim atvikum sem um ræddi. Komist var að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki, m.a. vegna vandkvæða þess að upplýsa svo gamalt mál með fullnægjandi hætti og þá með hliðsjón af almennt viðurkenndum aðferðum þess tíma.

Með hliðsjón af framansögðu og eftir yfirferð mína á gögnum málsins tel ég mig ekki hafa forsendur til að fullyrða annað en að heilbrigðisráðuneytið hafi í ljósi ákvæða laga nr. 41/2007 dregið forsvaranlegar ályktanir af gögnum málsins þegar það komst að þeirri niðurstöðu að staðfesta bæri hina kærðu ákvörðun landlæknis um frávísun kvörtunarmáls yðar. Tel ég því ekki ástæðu til að ég fjalli frekar um kvörtun yðar og lýk því umfjöllun minni um hana, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Meðal þess sem kemur fram í kvörtun yðar til umboðsmanns er að þér teljið að aðgerðir sem þér gengust undir árið 2017 og síðar hafi mistekist en af kvörtuninni að öðru leyti verður þó ekki ráðið að þær aðgerðir einar og sér eða ásamt öðru hafi verið hluti kvörtunarefnis yðar sem var til meðferðar hjá landlækni heldur einungis sú heilbrigðisþjónusta sem yður var veitt á næstu árum eftir slysið árið 1978. Vegna þessa skal bent á að ef þér teljið tilefni til getið þér kvartað yfir síðari aðgerðunum til landlæknis á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007.