Dýr. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11674/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun Matvælastofnunar um að svipta mann vörslu á hesti og aflífa dýrið. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið staðfesti ákvörðunina í úrskurði.

Af gögnum málsins varð ráðið að ágreiningur í því lyti einkum að því hvort skilyrði hefðu verið uppfyllt til að taka hestinn og aflífa. Samkvæmt lögum um umboðsmann Alþingis tekur starfssvið hans ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að leitað sé leiðréttingar með málskoti til dómstóla en svo háttaði til í þessu tilviki. Það yrði því að vera hlutverk dómstóla að fjalla um þennan ágreining.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 3. þessa mánaðar fyrir hönd A yfir ákvörðun Matvælastofnunar 7. júní sl. um að svipta A vörslum á tilgreindum hesti og aflífa hann. Samkvæmt úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 7. desember sl. staðfesti ráðuneytið ákvörðunina.

Af fyrirliggjandi gögnum sem og kvörtun yðar verður ráðið að ágreiningur málsins lúti einkum að því hvort skilyrði hafi verið uppfyllt til að svipta A vörslum hestsins og aflífa hann, þótt einnig séu gerðar athugasemdir við meðferð málsins. Í þeim efnum var lagt til grundvallar í úrskurði ráðuneytisins að skilyrði hefðu verið uppfyllt til að taka téða ákvörðun í ljósi ástands hestsins og þar sem A hefði ekki orðið við ítrekuðum kröfum stofnunarinnar um úrbætur.

Umrædd ákvörðun Matvælastofnunar byggðist á 38. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra. Í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að telji stofnunin að úrbætur þoli enga bið geti hún tekið dýr úr vörslu um­ráða­manns eða aflífað dýr sem hafa orðið fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar. Þá segir að framan­greindar aðgerðir skuli gerðar í samráði við eða samkvæmt fyrir­mælum lögreglu. Matvælastofnun sé ekki skylt að veita andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögum þegar úrbætur þoli enga bið. Í 41. gr. sömu laga er mælt fyrir um að nú vilji umráðamaður dýrs ekki hlíta því að dýr sé tekið úr vörslu hans og geti hann þá borið ágreiningsefnið undir dómstóla.

Samkvæmt c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Þá er gert ráð fyrir því í c-lið 2. mgr. 10. gr. sömu laga að varði kvörtun réttar­ágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt sé að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.

Af þessum ákvæðum auk annarra ákvæða laga um umboðsmann Alþingis verður ráðið að þau byggist á því að ákveðin verkaskipting sé milli umboðsmanns og dómstóla. Hafa þessi ákvæði verið skýrð þannig að það verði að jafnaði að vera hlutverk dómstóla að leysa úr málum sem snúast einkum um mat á atvikum, enda kunna slík mál að krefjast sönnunar­færslu, svo sem aðila- og vitnaskýrslna, sem dómstólar eru betur í stakk búnir að fást við. Að þessu virtu og að teknu tilliti til fyrr­greindra ákvæða laga nr. 55/2013 verður það að vera hlutverk dómstóla að fjalla um áðurnefnd ágreiningsefni málsins, sbr. einnig til hliðsjónar bréf mitt 8. apríl sl. í málum nr. 11518 og 11519/2022.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.