Samgöngumál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11680/2022)

Óskað var eftir því við umboðsmann að fá að taka bílpróf á ný eftir að hafa misst það í hálft annað ár.

Hvorki varð ráðið að erindinu hefði verið beint til viðeigandi stjórnvalda né að afstaða þeirri lægi fyrir og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það. Var viðkomandi bent á að leita með það til Samgöngustofu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 6. þessa mánaðar þar sem þér óskið eftir að taka bílpróf aftur eftir að hafa misst prófið í átján mánuði. Samkvæmt kvörtuninni hafið þér þó „ekki tök á að taka bílpróf aftur á venjulegan hátt“.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og til­greindar siðareglur. Í 6. gr. sömu laga er fjallað um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Af ákvæðum þeirrar greinar leiðir að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en afstaða stjórnvalda til þess liggur fyrir.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið beint erindi yðar til stjórnvalda eða að afstaða þeirra liggi fyrir. Samkvæmt 4. tölulið 7. gr. laga nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun sam­göngumála, skal stofnunin m.a. annast ökupróf, veita leyfi til að starf­rækja ökuskóla og hafa umsjón með ökunámi og eftirlit með öku­kennslu. Þér getið því freistað þess að beina erindi yðar til Sam­göngu­stofu.

Með vísan til þess sem rakið er að framan eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar og er athugun á henni því lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.