Fullnusta refsinga. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11682/2022)

Kvartað var yfir dómendum við Héraðsdóm Reykjavíkur og Landspítalanum.

Samkvæmt kvörtuninni hafði úrskurður héraðsdóms um fjárræðissviptingu verið kærður til Landsréttar. Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til dómstóla og því voru ekki uppfyllt skilyrði til að hann fjallaði um þann þátt. Hvað spítalann snerti vísaði umboðsmaður til fyrra lokabréfs vegna þess.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 8. þessa mánaðar yfir dómendum við Héraðs­dóm Reykjavíkur og Landspítala.

Af kvörtuninni verður ráðið að nýlega hafi verið kveðinn upp úrskurður við Héraðsdóm Reykjavíkur um fjárræðissviptingu yðar. Byggist kvörtun yðar á því að með niðurstöðunni hafi réttindi yðar samkvæmt tilgreindum ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 ekki verið virt. Samkvæmt því sem greinir í kvörtuninni hefur úrskurðurinn verið kærður til Landsréttar.

Í b-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að starfssvið hans taki ekki til starfa dómstóla. Af þessu ákvæðið leiðir að umboðsmaður fjallar hvorki um dómsathafnir né mál sem eru til meðferðar fyrir dómstólum. Af þeim sökum eru ekki uppfyllt skilyrði til að fjalla um kvörtun yðar. Að því marki sem hún beinist að Landspítalanum vísast enn fremur til bréfs 5. þessa mánaðar í máli nr. 11625/2022 í tilefni af kvörtun yðar 24. mars sl.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.