Skipulags- og byggingarmál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11585/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar um að synja umsókn um að breyta íbúð.

Í ákvörðuninni var vakin athygli á því að unnt væri að kæra hana til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þar sem það hafði ekki verið gert og hún fellt úrskurð í málinu voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það. 

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 3. mars sl. yfir ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar 21. apríl 2021 um að synja umsókn yðar um að fá leyfi til að breyta notkun tilgreinds eignarhluta í íbúð. Í ákvörðuninni var vakin athygli á því að unnt væri að kæra hana til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Í þessu ákvæði felst m.a. að hafi kæruheimild ekki verið nýtt eru ekki uppfyllt skilyrði til þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Þar sem ekki verður annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að fyrrgreind ákvörðun byggingar­fulltrúa hafi ekki verið kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yfir þeirri ákvörðun verði tekin til meðferðar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til framangreinds er umfjöllun um kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.