Menntamál. COVID-19.

(Mál nr. 11604/2022)

Kvartað var yfir afgreiðslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins á erindi foreldrafélags vegna heimilda grunnskóla til að fella niður staðkennslu nemenda sem ekki voru í sóttkví eða smitaðir af Covid-19. Beindist kvörtunin jafnframt að skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.

Þegar stjórnvöld svara fyrirspurnum, eins og þeim sem foreldrafélagið beindi til ráðuneytisins, eru þau ekki að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Ákvæði þeirra laga gilda því ekki um afgreiðslu stjórn­valda á slíkum erindum. Þrátt fyrir það ber stjórnvöldum í slíkum tilvikum að fara að almennum ólögfestum reglum stjórnsýslu­réttarins og fylgja vönduðum stjórnsýsluháttum. Eftir að hafa kynnt sér gögn málsins og skoðað fyrirspurnina sem beint var til ­ráðu­neytisins og það sem fram kom í svarbréfum þess var það niðurstaða umboðsmanns að í ljósi ákvæða grunnskólalaga gæfu svör ráðuneytisins ekki tilefni til athuga­semda.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

I

Vísað er til kvörtunar sem þér komuð á framfæri 16. mars sl. fyrir hönd foreldrafélags nemenda við X-skóla. Lýtur kvörtunin að afgreiðslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins, nú mennta- og barnamálaráðuneytið, 19. janúar sl. á erindi foreldrafélagsins um heimildir grunnskóla til að fella niður staðkennslu nemenda sem ekki voru í sóttkví eða smitaðir af Covid-19. Kvörtunin beinist jafnframt að skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.

Tilefni erindisins til ráðuneytisins var sú ákvörðun skóla­stjórnenda X-skóla, sem tilkynnt var með tölvubréfum 4. og 6. september sl., að fella niður staðkennslu tímabundið og halda úti fjarkennslu í unglingadeild skólans sökum fjölgunar Covid-19 smita. Var sú ákvörðun tekin í samráði við skóla- og frístundasvið borgarinnar.

 

II

Sveitarfélög bera ábyrgð á rekstri almennra grunn­skóla og eftirliti með þeim samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla, og njóta þau við rækslu þessa verkefnis nokkurs svigrúms innan marka laga til að skipuleggja grunnskólastarfið. Forstöðumaður hvers grunnskóla, þ.e. skólastjóri, hefur þá ákveðið svigrúm til að móta starf grunnskólans sem hann stjórnar, sbr. 7. gr. sömu laga. Þá fer ­ráðherra, nú mennta- og barnamálaráðherra, með yfirstjórn þeirra málefna sem lög nr. 91/2008 taka til, sbr. 4. gr. þeirra. Í ákvæðinu segir m.a. að ráðherra hafi úrskurðarvald í ágreiningsmálum eftir því sem lögin kveði á um og að ráðuneyti hans hafi eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lögin, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um.

Við mat á því hvort tilefni sé til viðbragða á fyrrgreindum grundvelli hefur ráðherra tiltekið svigrúm til mats með tilliti til atvika og þeirra lagareglna sem á reynir, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis 23. september 2019 í máli nr. 9944/2019. Þótt viðbrögð ráðuneytis við erindi sem beint er til þess með vísan til eftirlitshlutverks ráðuneytisins geti komið til athugunar hjá umboðsmanni Alþingis er það ekki hans að leggja til grundvallar eigið mat á málefninu heldur fyrst og fremst að taka til athugunar hvort fylgt hafi verið réttum málsmeðferðarreglum við meðferð erindisins, s.s. hvort matið hafi byggst á fullnægjandi upplýsingum, hvort málefnaleg og lögmæt sjónarmið hafi verið lögð til grundvallar ákvörðun og mati ráðuneytis og ályktanir hafi ekki verið bersýnilega óforsvaranlegar miðað við fyrirliggjandi gögn.

Í erindi foreldrafélagsins til ráðuneytisins var óskað eftir afstöðu þess til þess hvort leiðbeiningar mennta- og menningarmála­ráðuneytisins um sóttvarnir í skólastarfi haustið 2021 hefðu heimilað skólastjórnendum eða skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar að fella niður staðkennslu tímabundið og halda úti fjarkennslu, hvort meta bæri þá fjarkennslu til jafns við staðkennslu og loks hvort ráðuneytið teldi að sveitarfélögum bæri að bæta nemendum upp þann tíma sem þau hefðu misst úr kennslu vegna sóttvarnaráðstafna sem gripið hefur verið til vegna Covid-19.

Í svari ráðuneytisins kom m.a. fram að sú ákvörðun skólastjórnenda X-skóla um að fella niður staðkennslu tímabundið við unglingadeild skólans hefði verið tekin að undangengnu samráði skóla, fræðsluyfirvalda í Reykjavíkurborg og smitrakningar­teymis sóttvarnalæknis og almannavarna. Fyrir hafi legið að um 60% nemenda í unglingadeild skólans hefðu annaðhvort verið í sóttkví eða með virkt Covid-19 smit og þrátt fyrir ýmsar ráðstafanir hefði ekki tekist að koma í veg fyrir smit. Með hliðsjón af leiðbeiningum ráðuneytisins um sóttvarnir í skólum hefði ekki verið talið tilefni til að gera athugasemdir við þessa ráðstöfun eða ætla skólanum að bæta við fjórum skóladögum vegna hennar, enda slíkar kröfur ekki verið gerðar til rekstraraðila skóla frá upphafi faraldursins.

Þegar stjórnvöld svara fyrirspurnum, eins og þeim sem foreldrafélagið beindi til ráðuneytisins, eru þau ekki að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvæði þeirra laga gilda því ekki um afgreiðslu stjórn­valda á slíkum erindum. Þrátt fyrir það ber stjórnvöldum í slíkum tilvikum að fara að almennum ólögfestum reglum stjórnsýslu­réttarins og fylgja vönduðum stjórnsýsluháttum. Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins og skoðað þá fyrirspurn sem beint var til ­ráðu­neytisins og það sem fram kemur í svarbréfum ráðu­neytisins er það niðurstaða mín að í ljósi fyrrgreindra ákvæða grunnskólalaga gefi svör ráðuneytisins við umræddu erindi ekki tilefni til athuga­semda af minni hálfu.

 

III

Með framangreint í huga tel ég ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekar athugunar. Lýk ég því athugun minni vegna málsins með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.