Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11253/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða um ráðningu í starf.

Umboðsmaður taldi ekki forsendur til að fullyrða að sá sem ráðinn var hefði ekki uppfyllt skilyrði sem fram komu í starfsauglýsingu. Af gögnum málsins og skýringum stofnunarinnar varð ekki annað ráðið en ákvörðun um ráðningu í starfið hefði verið byggð á heildstæðu mati á hæfni umsækjenda eftir yfirferð umsóknargagna og viðtöl þar sem samræmdar spurningar hefðu verið lagðar fyrir umsækjendur. Þá yrði ekki séð að þau sjónarmið og viðmið sem ráðningin byggðist á hefðu verið ómálefnaleg eða í ósamræmi við auglýsingu um starfið. Ekki væri því tilefni til að gera athugasemdir við meðferð málsins.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 11. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

I

Vísað er til kvörtunar yðar 13. ágúst sl. fyrir hönd A yfir ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða um ráðningu í auglýst starf umsjónarmanns upplýsingatæknimála sem honum var tilkynnt um 21. júní sl., en hann var á meðal umsækjenda um starfið. Kvörtunin lýtur einkum að því að sá umsækjandi sem ráðinn var hafi ekki uppfyllt hæfniskröfur samkvæmt auglýsingu um þekkingu og reynslu af umsjón og rekstri upplýsingatæknikerfa auk þess sem gerðar eru athugasemdir við mat á hæfni umsækjenda.

     Með bréfum til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða 18. ágúst og 10. desember sl. var óskað eftir öllum gögnum málsins og að stofnunin veitti þær skýringar sem kvörtun yðar gæfi efni til. Umbeðin gögn og svör bárust 29. september og 10. janúar sl.

 

II

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Við athugun á málum sem þessum er umboðsmaður ekki í sömu stöðu og það stjórnvald sem ákvað hvaða umsækjanda skyldi ráða í starf, enda hefur verið lagt til grundvallar í íslenskum rétti að stjórnvald njóti svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur hafi það aflað fullnægjandi upplýsinga til að meta hæfni þeirra og sýnt fram á að heildstæður samanburður á þeim hafi farið fram. Í þessu máli er það því ekki hlutverk umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvern átti að ráða í téð starf, heldur að fjalla um hvort meðferð málsins og ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hafi verið lögmæt.

     Í auglýsingu um starfið kom fram að leitað væri eftir drífandi starfsmanni með sterkan tæknilegan bakgrunn sem sýndi frumkvæði að nýjungum og endurbótum á upplýsingakerfum. Framundan væru fjölbreytt og krefjandi verkefni með áherslu á frekari stafræna þróun, fjarheilbrigðisþjónustu og sjálfvirknivæðingu. Viðtöl yrðu tekin við umsækjendur og yrði ákvörðun um ráðningu í starfið byggð á þeim ásamt innsendum gögnum og umsögnum meðmælenda. Þá voru hæfniskröfur skilgreindar með eftirfarandi hætti:

 

  • Menntun á sviði tölvunarfræði, kerfisstjórn eða öðru sem nýtist í starfi. Háskólapróf, sérstaklega meistarapróf, er kostur.
  • Þekking og reynsla af umsjón og rekstri upplýsingatæknikerfa.
  • Þekking á Orra, kerfi Fjársýslunnar og sjúkraskrárkerfinu Sögu er kostur.
  • Sjálfstæð vinnubrögð, frumkvæði og metnaður til að ná árangri í starfi.
  • Greiningarhæfni og skipulagshæfileikar.
  • Framúrskarandi samskiptahæfni og mikil þjónustulund.
  • Góð kunnátta í íslensku og ensku.

 

Fimm sóttu um starfið. Í rökstuðningi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða 6. júlí sl. kemur m.a. fram að öllum umsækjendum hafi verið boðið í fyrsta viðtal en að þeim loknum hafi tveir umsækjendur verið boðaðir í síðara viðtal, en annar þeirra hafi dregið umsókn sína til baka. Við mat á umsóknum hafi umsóknargögn ásamt viðtali við umsækjendur verið lögð til grundvallar og við matið hafi verið horft til þess hvernig umsækjandi uppfyllti þær kröfur sem settar hefðu verið fram í auglýsingu um starfið. Frammistaða þess sem ráðinn var hefði verið sérstaklega góð í viðtali og hefði hann greinilega kynnt sér starfsemi stofnunarinnar og þau upplýsingakerfi sem hún notaði. Það hefði verið mat þeirra sem tóku viðtöl við umsækjendur að hann uppfyllti kröfur um framúrskarandi samskiptahæfni og mikla þjónustulund. Í viðtölunum hefði hann haft mikinn metnað til að ná árangri í starfi, haft hugmyndir um hvernig bæta mætti helstu ferla þegar kæmi að upplýsingatækni og auka sjálfvirkni.

 

III

1

Sem fyrr segir lýtur kvörtun yðar einkum að því að sá umsækjandi sem ráðinn var í starfið hafi ekki uppfyllt almenn hæfisskilyrði auglýsingarinnar um þekkingu og reynslu af umsjón og rekstri upplýsingakerfa. Með almennum hæfisskilyrðum er átt við þau lágmarksskilyrði sem opinber starfsmaður þarf að uppfylla til þess að hljóta ráðningu í starf og halda því. Þegar lög mæla ekki fyrir um ákveðin hæfisskilyrði fyrir tilgreind störf fellur það í hlut þess stjórnvalds sem fer með ráðningarvaldið að meta hvort rétt sé að gera tiltekna þætti að almennum hæfisskilyrðum vegna starfs, að því gefnu að málefnaleg sjónarmið búi þar að baki. Er það að jafnaði einnig á valdi stjórnvaldsins að meta hvort hæfisskilyrði sé uppfyllt.

     Samkvæmt gögnum málsins hefur sá umsækjandi sem ráðinn var lokið B.Sc. prófi í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og þá starfaði hann sem hugbúnaðarsérfræðingur hjá X í um eitt ár þar til hann var ráðinn í starfið. Í skýringum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða kemur fram um þetta atriði að það hafi verið mat stofnunarinnar að hann hefði starfsreynslu sem nægði, auk þess sem hann hefði öðlast þekkingu á rekstri upplýsingatæknikerfa í námi sínu og starfi.

Að virtu framangreindu og að teknu tilliti til þess hversu almennt orðalag er notað um téða hæfniskröfu í starfsauglýsingunni tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að fullyrða að viðkomandi hafi ekki uppfyllt umrætt skilyrði eða að mat stofnunarinnar að þessu leyti hafi verið bersýnilega óforsvaranlegt. Í þessu sambandi legg ég áherslu á að umboðsmaður er ekki í sömu aðstöðu og veitingarvaldshafinn til að leggja mat á hvernig fyrirliggjandi reynsla umsækjenda, þ.m.t. sá tími og þau viðfangsefni sem umsækjandi hefur fengist við í fyrri störfum, muni nýtast í hinu nýja starfi.

 

2

Í kvörtun yðar eru jafnframt gerðar athugasemdir við efnislegt mat á hæfni A og þess umsækjanda sem ráðinn var í starfið og A hafi ekki verið spurður út í nánar tiltekin atriði sem samkvæmt rökstuðningi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða höfðu þýðingu við mat á frammistöðu aðila í viðtali og þar með hæfi umsækjenda.

     Í ljósi framangreinds er rétt að taka fram að heildarmat á hæfni umsækjenda byggist almennt ekki eingöngu á hlutlægum mælanlegum þáttum, eins og lengd starfsreynslu, og getur því einnig verið heimilt að byggja á huglægum sjónarmiðum, s.s. persónulegum eiginleikum umsækjenda, frammistöðu í viðtali og samskiptahæfni. Við heildstætt mat þarf veitingarvaldshafinn jafnframt að meta hvernig líklegt sé að sú reynsla og hæfni sem umsækjandi hefur yfir að búa muni nýtast í starfinu sem sótt er um. Reglur stjórnsýsluréttarins gera fyrst og fremst kröfu um að þetta mat sé byggt á fullnægjandi grundvelli og málefnalegt. Af þessu leiðir að stjórnvaldið verður að hafa aflað sér fullnægjandi upplýsinga vegna þeirra atriða og sjónarmiða sem það ætlar að byggja á.

     Af gögnum málsins og skýringum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða verður ráðið að rannsókn stofnunarinnar hafi, að loknu mati á hlutlægum gögnum, einkum verið byggð á viðtölum við umsækjendur þar sem þeir hafi verið spurðir samræmdra spurninga. Voru allir umsækjendur boðaðir í fyrsta viðtal og sátu þeir því við sama borð að þessu leyti. Þá er ljóst að frammistaða umsækjenda í viðtali og þær upplýsingar sem þar komu fram höfðu verulegt vægi við matið. Þegar svo háttar til að stjórnvald telur einn umsækjanda hæfastan með vísan til mats sem byggist á viðtölum við umsækjendur og umsagnaraðila er endurskoðun umboðsmanns að þessu leyti takmörkuð við þau gögn sem liggja fyrir í málinu, en á meðal gagna málsins eru samræmdir spurningalistar sem hafa að geyma samantekt á svörum umsækjenda.

Vegna athugasemda yðar um að A hafi ekki verið spurður út í nánar tiltekin atriði tek ég fram að ekki verður annað séð en að um hafi verið að ræða atriði sem staðið hafi í tengslum við helstu verkefni og ábyrgð umsjónarmanns upplýsingatæknimála eins og þau voru nánar útfærð í auglýsingu um starfið. Þá voru umsækjendur jafnframt spurðir út í það í viðtali hvað þeir hefðu fram að færa sem félli að lýsingu starfsins í auglýsingunni. Að þessu virtu tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar að þessu leyti.

     Í ljósi þess sem að framan er rakið og eftir að hafa kynnt mér gögn málsins og skýringar stofnunarinnar verður ekki annað ráðið en að ákvörðun um ráðningu í starfið hafi verið byggð á heildstæðu mati á hæfni umsækjenda eftir yfirferð umsóknargagna og viðtöl þar sem samræmdar spurningar voru lagðar fyrir umsækjendur. Þá verður ekki heldur séð að þau sjónarmið og viðmið sem ráðningin var byggð á hafi verið ómálefnaleg eða í ósamræmi við það sem fram kom í auglýsingu um starfið.

Að þessu virtu og í ljósi þess svigrúms sem játa verður stjórnvöldum við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur til að gegna starfi hverju sinni tel ég ekki efni til að slá því föstu að mat á hæfi umsækjenda hafi verið bersýnilega óforsvaranlegt eða tilefni sé til þess að gera athugasemdir við meðferð málsins að öðru leyti.

 

IV

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á málinu, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.