Kvartað var yfir uppsögn úr starfi hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.
Af frétt á vef stjórnarráðsins varð ekki annað ráðið en tilfærsla náms frá LbhÍ til FSu væri til meðferðar hjá þeim og viðkomandi ráðuneytum og að viðkomandi myndi standa til boða kennslutengt starf við Fjölbrautaskóla Suðurlands í beinu framhaldi af starfslokum hjá LbhÍ. Þar sem boðaðar breytingar voru enn til meðferðar hjá stjórnvöldum var ótímabært að umboðsmaður fjallaði frekar um kvörtunina.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 12. maí 2022, sem hljóðar svo:
Vísað er til kvörtunar yðar 2. maí sl. yfir uppsögn úr starfi yðar á starfsstöð Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum. Í bréfi rektors 26. apríl sl. með tilkynningu um uppsögnina segir að uppsagnarfrestur sé þrír mánuðir og að starfslok yðar verði 31. júlí nk. Í bréfinu kemur fram að ástæða uppsagnarinnar sé að starfið verði lagt niður og er þar vísað til ákvörðunar mennta- og menningarmálaráðherra um tilfærslu starfsmenntanáms í garðyrkju og skyldum greinum frá Landbúnaðarháskóla Íslands til Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Í frétt á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands 29. apríl sl. greinir frá samkomulagi um framangreinda tilfærslu náms sem mennta- og barnamálaráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kynntu í ríkisstjórn þann dag. Í samkomulaginu sem birt er með fréttinni er m.a. að finna eftirfarandi ákvæði:
„Fsu mun bjóða öllu starfsfólki LbhÍ sem hefur sinnt kennslu og tengdum störfum á Reykjum ráðningu frá 1. ágúst 2022“.
Af fréttinni verður því ekki annað ráðið en að tilfærsla umrædds náms innan áðurnefndra menntastofnana sé til meðferðar hjá þeim og viðkomandi ráðuneytum og að yður muni standi til boða kennslutengt starf við Fjölbrautaskóla Suðurlands í beinu framhaldi af starfslokum yðar við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmanns Alþingis, segir að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem hefur með höndum stjórnsýslu geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Af ákvæðum laganna leiðir enn fremur að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en það hefur verið leitt til lykta innan stjórnsýslunnar. Að því virtu og þar sem boðaðar breytingar, sem uppsögn yðar var liður í, eru enn til meðferðar hjá stjórnvöldum tel ég ótímabært að fjalla um kvörtun yðar.
Í ljósi framangreinds tel ég ekki tilefni til þess að fjalla frekar um kvörtun yðar að svo stöddu og lýk því umfjöllun minni um hana, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér teljið yður hins vegar enn beitta rangsleitni eftir að boðaðar breytingar hafa verið framkvæmdar getið þér leitað til umboðsmanns að nýju með kvörtun.