Fullnusta refsinga. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11665/2022)

Kvartað var yfir tilkynningu Fangelsismálastofnunar um afplánun. Refsing vegna eins af fimm dómum sem lægi til grundvallar fangelsisvistinni væri fyrnd.

Þar sem ekki hafði verið leitað til dómsmálaráðuneytisins vegna ákvörðun Fangelsismálastofnunar voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina. 

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 12. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 14. apríl sl. yfir tilkynningu Fangelsis­málastofnunar 23. september sl. um afplánun. Af kvörtuninni verður ráðið að þér teljið að refsing samkvæmt einum af þeim fimm dómum sem liggur til grundvallar afplánun yðar sé fyrnd. Í kvörtuninni vísið þér auk framangreinds til þess að þér hafið verið í samfélagsþjónustu sem hafi verið hætt án skriflegrar tilkynningar.

Samkvæmt lögum nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, fer dómsmála­ráðherra með yfirstjórn fangelsismála auk þess sem ákvarðanir Fangelsis­málastofnunar á grunni laganna eru að jafnaði kæranlegar til ráðuneytis hans. Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðs­manns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Þar sem ekki liggur fyrir að þér hafið leitað til dóms­mála­ráðu­neytisins með mál yðar eru ekki skilyrði að lögum til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um erindi yðar, sbr. 1. mgr. 10 gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Farið þér þá leiða að freista þess að bera málið undir dóms­mála­ráðuneytið og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu þess getið þér leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi.