Sveitarfélög.

(Mál nr. 11592/2022)

Kvartað var yfir svari innviðaráðuneytisins við erindi og að það hefði ekki leyst úr málinu með fullnægjandi hætti.

Þessi kvörtun var framhald annarrar sem umboðsmaður hafði áður afgreitt. Af gögnum málsins og svörum ráðuneytisins fékk umboðsmaður ekki annað séð en erindið hefði einkum lotið að einkaréttarlegum ágreiningi og ekki tilefni fyrir sig til að aðhafast frekar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 12. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 7. mars sl. er lýtur að svari innviða­ráðu­neytisins 24. febrúar sl. við erindi yðar frá 1. júlí sl. Með erindinu kvörtuðuð þér yfir stjórnsýslu Breiðdalshrepps, Fjarðabyggðar og Háskóla Íslands vegna aðkomu þeirra að endurbótum á tilgreindri fasteign og utanumhaldi rekstrar hennar. Teljið þér ráðuneytið ekki hafa leyst úr málinu með fullnægjandi hætti. Um er að ræða framhald á kvörtun sem þér lögðuð fram 16. ágúst sl. og hlaut málsnúmerið 11248/2021. Hafa gögn þess máls einnig verið höfð til hliðsjónar við meðferð málsins hjá umboðsmanni.

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 hefur innviðaráðherra eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt lögunum og öðrum löglegum fyrirmælum. Þá leiðir af 2. mgr. sömu lagagreinar að eftirlit ráðherra tekur ekki til ákvarðana sveitarfélaga sem öðrum stjórnvöldum á vegum ríkisins er með beinum hætti falið eftirlit með. Að því leyti sem ekki er um að ræða ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti innviða­ráðu­neytisins samkvæmt 109. gr. ákveður ráðuneytið sjálft hvort tilefni er til að taka til formlegrar umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags sem lýtur eftirliti þess, sbr. 1. mgr. 112. gr. laganna.

Í svari ráðuneytisins var m.a. vísað til þess að það álitaefni sem erindi yðar beindist að snerti fjárkröfu sem beint væri að Fjarða­byggð, sem Breiðdalshreppur sameinaðist árið 2018, vegna tiltekinna kaupa á þjónustu og efni á árunum 2009 og 2010 þar sem skyldur og réttindi aðila réðust fyrst og fremst af reglum kröfu- og samningaréttar. Þótt þar kynni að reyna á almennar reglur stjórn­sýslu­réttar væri það mat ráðuneytisins að svo háttaði ekki til í málinu. Þá féllu álitaefni er vörðuðu slit félags áhugamanna um uppbyggingu [...] utan eftirlits ráðuneytisins og ekki yrði séð að þau féllu undir stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Eftir að hafa kynnt mér erindi yðar til ráðuneytisins sem og svar þess fæ ég ekki annað séð en að erindi yðar hafi fyrst og fremst lotið að einkaréttarlegum ágreiningi, þ.á m. innri málefnum þeirra félaga sem héldu utan um áðurnefnda fasteign. Í ljósi þessa tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að aðhafast ekki frekar þar sem erindi yðar hafi ekki fallið undir stjórnsýslueftirlit þess eins og það væri afmarkað í 109. og 112. gr. sveitarstjórnarlaga. Þá tel ég kvörtunarefni yðar að öðru leyti ekki gefa tilefni til frekari athugunar.

Með vísan til framangreinds læt ég meðferð minni á málinu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.