Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Málskot til landbúnaðarráðherra út af endurgreiðslu sérstaks fóðurgjalds.

(Mál nr. 700/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 19. nóvember 1992.

A, eggjaframleiðandi, kvartaði m.a. yfir því, hvernig hagað hefði verið endurgreiðslu sérstaks fóðurgjalds. Í bréfi til A, dags. 19. nóvember 1992, tók ég fram, að um stjórn eggjaframleiðslu giltu lög nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Í bréfi mínu sagði m.a.:

„Í d-lið 30. gr. laganna segir meðal annars, að til þess að hafa stjórn á framleiðslu búvara, þannig að hún verði í samræmi við tilgang laganna, sé landbúnaðarráðherra heimilt að innheimta fóðurgjald af innfluttu fóðri og hráefnum í það. Er tekið fram að heimilt sé að „... endurgreiða framleiðendum búvara hið sérstaka fóðurgjald eða hluta þess og skal miða endurgreiðslur við framleiðslumagn sem ákveðið er eftir þörf markaðarins fyrir viðkomandi búvöru eða ákveðið skv. b- og c-lið þessarar greinar“. Á grundvelli 30. gr. laga nr. 46/1985 hefur landbúnaðarráðherra sett reglugerðir um ráðstöfun á sérstöku fóðurgjaldi vegna afurða alifugla og svína, nú síðast með reglugerð nr. 32/1990.

...

... það skoðun mín, að ágreiningur, sem kann að vera út af tilkalli yðar til endurgreiðslu nefnds fóðurgjalds, verði borinn undir landbúnaðarráðherra til úrskurðar, en samkvæmt 3. gr. laga nr. 46/1985 fer hann með yfirstjórn þeirra mála, sem lögin taka til. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er ekki hægt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu.“

Niðurstaða mín varð því sú, að skilyrði brysti til þess, að ég gæti, að svo stöddu, fjallað frekar um framangreinda kvörtun A, en teldi A sig enn órétti beittan, að fengnum úrskurði landbúnaðarráðherra, gæti hann leitað til mín á ný.