Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11634/2022)

Kvartað var yfir stöðubrotsgjaldi sem Bílastæðasjóður Reykjavíkur lagði vegna bíls sem lagt hafði verið á móti akstursstefnu og gerð athugasemd við túlkun Bílastæðasjóðs á umferðarlögum.

Umboðsmaður rakti og skýrði samspil greina í umferðarlögum og breytingar sem gerðar hefðu verið á þeim. Út frá því og ljósmyndum af vettvangi væri ekki tilefni til að gera athugasemdir við ákvörðun bílastæðasjóðs.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 12. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 28. mars sl. yfir stöðubrotsgjaldi sem Bíla­stæðasjóður Reykjavíkur lagði á yður 17. mars sama mánaðar fyrir að hafa lagt tilgreindri bifreið í öfuga átt við akstursstefnu í and­stöðu við fyrirmæli 2. mgr. 28. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Í kvörtun yðar byggið þér einkum á því að þótt bifreiðinni hafi verið lagt í öfuga átt við akstursstefnu hafi henni verið lagt í samræmi við fyrirmæli umferðarlaga, enda hafi henni verið lagt hægra megin við götuna sé horft til vesturs. Teljið þér túlkun Bílastæðasjóðs ekki eiga sér stoð í lögum.

Í 1. málslið 2. mgr. 28. gr. umferðarlaga er mælt fyrir um að á vegi megi einungis stöðva ökutæki eða leggja því hægra megin. Er það í samræmi við meginreglu 1. mgr. 18. gr. laganna þess efnis að við akstur á vegum gildi hægri umferð. Í 2. og 4. málslið 2. mgr. 28. gr. laganna er gert ráð fyrir undantekningum frá þessari reglu sem hér eiga þó ekki við. Eru ákvæði umferðarlaga að þessu leyti óbreytt frá áður gildandi umferðarlögum nr. 50/1987 og varð því ekki breyting að þessu leyti með gildistöku laga nr. 77/2019.

Með því að skýra ákvæði fyrrgreinds 1. málsliðar 2. mgr. 28. gr. umferðarlaga til samræmis við 1. mgr. 18. gr. laganna verður að skilja fyrirmæli 28. gr. þeirra, um að leggja skuli ökutæki hægra megin, á þann veg að leggja skuli ökutæki samhliða akstursstefnu nema heimilt sé samkvæmt 2. eða 4. málslið 2. mgr. greinarinnar að leggja ökutæki vinstra megin. Að því virtu og eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar og ljósmyndir af vettvangi tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við téða ákvörðun.

Með vísan til framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.